Úr vöndu að ráða…
Auðvitað þurfti þess ekki lengi að bíða að svör bærust við tæknisögugetrauninni um kolakranann. Að öðrum innsendum lausnum báru þó tveir aðilar af öðrum, en það voru þau Sverrir Guðmundsson og Bryndís. Hvorugt svarið telst þó fullkomlega rétt og verður dómari því að skera úr um hver hreppa muni hnossið – veglega myndabók frá árinu 1986.
Fyrst var spurt hvenær kraninn hafi verið reistur. Þar svarar Sverrir því til að það hafi verið árið 1925. Bryndís segir hins vegar að hafist hafi verið handa við verkið á árinu 1926 en framkvæmdum lokið árið eftir. Mun Bryndís hér fara með rétt mál. – Sverrir 0 : Bryndís 1
Á öðru lagi var spurt hvaða ofurhugi hafi verið aðalhvatamaður að framkvæmdinni. Bryndís giskar ranglega á borgarstjórann Knud Zimsen en Sverrir bendir réttilega á að það hafi verið Hjalti Jónsson, betur þekktur sem Eldeyjar-Hjalti. – Sverrir 1 : Bryndís 1
Þriðja spurning var um það hvaða fyrirtæki hafi rekið kranann. Ekki vafðist sú þraut mikið fyrir snillingunum sem bæði vissu að það var innflutningsfyrirtækið Kol og salt. (Sá dáraskapur Sverris að tengja yfir á teiknistofuna Kol og salt fellur í grýttan jarðveg hjá dómara.) – Sverrir 2 : Bryndís 2
Fjórða og næstsíðasta spurning var um það hvað kraninn var nefndur í daglegu tali. Sverrir svarar því ekki, hvort sem um hefur verið að ræða þekkingarbrest eða fljótfærni. Bryndís hitti hins vegar naglann á höfuðið með því að taka fram að hann hafi verið kallaður „Hegrinn“. – Sverrir 2 : Bryndís 3
Lokaspurningin var um það hvenær kraninn var rifinn. Þar skilar Bryndís hins vegar auðu en Sverrir segir 1968. – Sverrir 3 : Bryndís 3 Jafntefli!
Kemur þá að útbýtingu aukastiga.
Bryndís lét skemmtilegan fróðleiksmola fylgja með svari sínu, þar sem hún vitnaði til kvæðis eftir Tómas Guðmundsson þar sem Hegrinn kom við sögu. þar segir:
En hátt yfir umferð hafnar og bryggju
og hátt yfir báta og skip
sfinxi líkur rís kolakraninn
með kaldan muserissvip.
Hann mokar kolum og mokar kolum
frá morgni til sólarlags.
Raust hans flytur um borg og bryggjur
boðskap hins nýja dags.
Fyrir þetta fær Bryndís aukastig og ber því sigur úr býtum.
Jamm.