Söguskekkja kattarins
Viðar heitir maður og er Pálsson. Einhverra hluta vegna kýs hann að kalla sig „Köttinn“ . Hvers vegna er mér hulin ráðgáta, enda kettir ógeðslegar skepnur. Mætti ég þá fremur biðja um minka. Látum þó gott heita.
Á dag skrifar Viðar um Karlamagnús keisara og misheppnuðum samgöngubótum hans. Er það mikil hörmungasaga. En grípum niður í lokakafla pistilsins:
„Hvernig tilfinning ætli það hafi verið að horfa á brúna brenna? Öll þessi vinna verður að ösku á augabragði. Kannski svipað og Newton þegar hundurinn hans, Demantur að heiti, rakst í kerti með þeim afleiðingum að margra ára útreikningar eigandans um eitthvert blabla brunnu. Eftir því sem ég las eitt sinn varð Newton svo frústreraður og svekktur og bældur og skældur og súr og niðurlotinn að hann snéri sér að Biflíurannsóknum um langa hríð. Við hljótum að kalla á tæknisögufríkið til nánari frásagna og leiðréttinga um meistara Newton; það er æði langt síðan ég las þetta.“
Hér er ekki laust við að örli fyrir vissri söguskekkju hjá Viðari – eða öllu heldur að hann tyggi upp þjóðsögu sem endurspegli síðari tíma gildismat. Newton karlinn sýslaði nefnilega í ýmsu í gegnum tíðina. Einhverju sinni las ég að ef tekinn væri sá síðufjöldi sem hann hefði skrifað um aflfræði, þá væru síðurnar um ljósfræði fjórum sinnum fleiri, umfjöllunin um gullgerðarlist tífalt plássfrekari og skrifin um guðspeki þrjátíufalt viðameiri. (Man ekki hver réttu hlutföllin voru.)
Lengi vel tíðkuðu vísindasagnfræðingar sem fjölluðu um Newton það að byrja á að henda út öllu draslinu sem ekki fjallaði um aflfræði eða ljósfræði og reyndu raunar að þagga það niður að goðið hafi varið óratíma í að reyna að búa til gull úr blýi. Þetta er hins vegar augljóslega markhyggja. Þótt við teljum guðspeki og gullgerðarlist vera fánýt fræði í raunvísindum í dag, þá voru þau það ekki á tíma Newtons. Það þurfti engan klaufskan kettling til að leiða Newton frá því sem við teljum í dag „alvöru vísindi“ yfir í guðfræðigruflið – þvert á móti var óhugsandi á þessum tíma að reyna að skilja lögmál náttúrunnar án þess að skilja lögmál guðdómsins.
Bestu rannsóknir fræðimanna nú um stundir á verkum Newtons taka einmitt tillit til þátta á borð við gullgerðartilrauna hans og stjörnuspekiáhuga. Færa má rök fyrir því – og það hefur raunar verið gert á áhrifaríkan hátt – að stjórnmálaskoðanir og trúarhugmyndir Newtons og samtíðarmanna hans skipti geysilegu máli fyrir kenningalegan grundvöll eðlisfræði þeirra. Um þetta má lesa í hinni frábæru bók Leviathan and the Air-Pump sem er tímamótaverk í vísindasögunni.
Sem sagt – það er álíka líklegt að hundurinn og kertið hafi breytt þeirri stefnu sem vísindastarf Netons tók og að hann hafi í raun og veru fengið hugljómun þegar eplið féll á höfuð hans. (By the way – helvítis eplatréð lifir enn og er orðið mörghundruð ára gamalt…)