Helgarskýrslan
Viðburðarík helgi að baki. Raunar ein af þeim sem maður kemur þreyttari út úr en inn í.
Hasarinn byrjaði á föstudagskvöld með Norðfirðingaballi á Hótel Íslandi. Þetta er árviss söngskemmtun þar sem Norðfirðingar setja upp söngprógram fyrir austan og flytja svo suður. Þangað flykkjast brottfluttir Norðfirðingar og hálfur bærinn fylgir með söngvurunum. Á fyrra var þema skemmtunarinnar: Júróvisíonlög. Það var gaman. – Á ár var þemað: sólstrandarlög. Það var ekki alveg jafn gaman.
Gallinn við að mæta á svona dagskrá sem aðkomumaður er að fyrir mér eru söngvararnir og tónlistarmennirnir einmitt það – söngvarar og tónlistarmenn, og ekki allir burðugir sem slíkir. Fyrir Norðfirðinga eru allir þátttakendurnir fyrst og fremst vinir og kunningjar – Gúndi á traktornum; Bibba dóttir hans Gúnda í sjoppunni og Halli exi. Fyrir mig var upplifunin meira í átt við að horfa á ókunnugt fólk í karókí. – En ballið var fínt að öðru leyti. Hitti bönsj af fólki, þar á meðal Sonju úr kjallaranum – söngkonu 5tu herdeildarinnar. Sonja er úr Borgarfirðinum og við höfðum því margt að ræða um Lionessuklúbbinn Öglu. (Útskýri þetta betur við tækifæri…)
* * *
Þótt við skriðum ekki heim af Norðfirðingaballinu fyrr en kl. hálf fjögur þá var engin miskunn hjá Magnúsi, því við þurftum að rífa okkur á lappir fyrir tíu. (Sem var aðeins meira en Steinunn var að höndla í þynnkunni.) Við vorum nefnilega búin að stefna nokkrum vinum og vandamönnum í morgun-/hádegiskaffi á Mánagötu. Tilangurinn var sá að hita upp fyrir mótmælin á Lækjartorgi seinni partinn.
Mótmælin tókust frábærlega. Ég greip með friðarspjaldið hennar Steinunnar sem geymt er í stofunni svo grípa megi til þess ef þarf að mótmæla með skömmum fyrirvara. Það var hellingur af fólki á Torginu þrátt fyrir skítakulda. Mogginn sagði 1.500 manns og ég er ekki fjarri því að það sé rétt hjá þeim. Fjölmennt var þetta í það minnsta og vonandi bara byrjunin á áframhaldandi aðgerðum gegn stríðsgeðveiki Bandaríkjanna og NATO varðandi írak.
* * *
Á laugardagskvöldið var horft á Bíódaga á Skjá einum. Mikið rosalega er það vond mynd. Ég hef sjaldan orðið jafn pirraður yfir íslenskri kvikmynd. Það er með ólíkindum hvað Friðrik Þór er mistækur. Nú eru Skytturnar besta íslenska mynd sem gerð hefur verið og Börn náttúrunar voru líka fín. Þessi mynd var hins vegar ömurleg og svo er mér sagt að Fálkar séu afleitir líka. – Skrítið!
Eftir Bíódagana lá leiðin til Kolbeins Proppé. Hann er orðinn þingframbjóðandi í Suðurkjördæmi og því þurfti að diskútera margt. Ekki varð þó mikið úr plottum, enda fór megnið af tímanum í að reyna að svindla í SMS-vali Popptívís á lögum. – Svo þegar okkur tókst loksins að tryggja okkar lagi brautargengi, þá spiluðu svíðingarnir það hljóðlaust. – TURK 182!
* * *
Sunnudagurinn fór letilega af stað. Fótbolti á Nesinu, sem Svenni mun vonandi blogga um fljótlega. Síðan settumst við Svenni niður á safninu til skrafs og ráðagerða. Nokkrir gestir komu í heimsókn, þar á meðal Sæmundur sem var burðarás í öflugu Borgarholtsskólaliði í Gettu betur um árið. Hann mætti ásamt föður sínum og bróður til að kynna sér raforkusöguna. Að sjálfögðu duttum við niður í Gettu betur-nördaskap. – Meðan á heimsókn þeirra stóð lá við stórslysi, en það fór sem betur fer vel.
* * *
Kvöldmatur hjá gömlu í Frostaskjólinu. íkváðum eftir matinn að skella okkur á bíó og taka pabba með. Þá er maður loksins búinn að sjá Hringadróttinssögu. Ég held með Gollum. Vonandi vinnur hann, hinir mega allir drepastmín vegna.
Jamm.