Pínlegt
Hver er martröð grunnskólanemans? Að kalla kennarann sinn óvart „mömmu“. Ég held að börnin myndu fremur vilja mæta nakin í skólann en að láta það henda sig.
Á heimsókninni í morgun kallaði einn grísinn skólaliðann sem kom með hópnum „mömmu“. Sem betur fer hans vegna heyrðu þetta fáir, en mikið óskaplega fannst þeim það samt fyndið. Hvers vegna eru jafn eðlileg mismæli og þessi svona gríðarlega niðurlægjandi fyrir krakka?
* * *
Á gær fékk ég vondar fréttir. Svo gæti farið að íslenskur fótboltamaður sé á leiðinni til Luton. Það er martröð stuðningsmanna enskra liða að íslenskur leikmaður gangi til liðs við félagið þeirra – sérstaklega ef þeir eru slappir.
Alltaf þegar ég mætti á leiki með Hearts og fór að spjalla við fólk á barnum á undan, þá brást ekki að um leið og fram kom að ég væri Íslendingur fór einhver að hæðast að „Óli the Goalie“ – eða Ólafi Gottskálkssyni, sem var um tíma aðalmarkvörður með Hibernian, erkiféndunum.
Ef af þessum félagaskiptum verður, mun spjallsíðan hjá stuðningsmannaklúbbi Luton fyllast af Íslendingum sem finna sig knúna til að fræða stuðningsmennina um kosti og galla leikmannsins – spyrja frétta og ræða um Stoke. Þetta er vont mál.
* * *
Á gær skutlaði ég manni sem ekki hefur bílpróf. Hann skellti bílhurðinni svo fast að bíllinn ætlaði sundur að ganga. Hvers vegna er þetta einkenni á fólki sem ekki ekur bíl sjálft? Var virkilega kennt í ökuskólanum hvernig skella eigi bílhurð? Alveg var ég búinn að gleyma því…