Ekki dauður enn
…en óskaplega er ég samt þungur í dag. Ekki útilokað að það tengist því að við Palli settumst inn á Mánagötunni eftir fund dauðans og kláruðum Dalmore-flöskuna mína (sem var reyndar langt komin) og bjórana sem við keyptum okkur á Kaffi Stíg. Mín eina huggun í miðvikudagsþynnkunni er sú að Pala líður væntanlega verr, enda er hann í seinni tíð farinn að verða óskaplega þunnur af minnsta tilefni. Þetta tengist því líklega að margra ára reykingar, kaffiþamb og svefnleysi hafi loksins megnað að knésetja ónæmiskerfi líkamans. Nú síðast varð Palli sér út um köttinn Hund, sem mun ríða honum að fullu enda Páll frægur ofnæmissjúklingur. – Sennilega er vissara fyrir mig að fara að ná í hina og þessa hluti sem ég hef lánað Páli í gegnum tíðina, það getur verið svo rosalega erfitt að ná hlutum aftur til sín ef þeir lenda í erfiðum dánarbúum.
* * *
Mér tókst greinilega að ganga fram af Bjarna með sagnfræðinördaskap á fyrirlestri okkar Skúla í gær – sem reyndar gekk þrælvel. Bjarni er greinilega klassískur viðtökuhópur hefðbundinnar sagnaritunnar – hann vill bara fá að heyra söguna og engar refjar. Við póstmódernistarnir nennum ekkert að velta okkur upp úr slíkum leiðindum heldur fabúlerum um vægi túlkunar og þessháttar froðu. Það er miklu skemmtilegra. – Þetta á Bjarni að skilja sem tölvunörd. Ef tölvukerfi væru hönnuð til að mæta þörfum venjulegs fólks þá væru þau einföld, auðskilin og biluðu aldrei. Tölvunördunum finnst það hins vegar ekkert gaman og eru þess vegna endalaust að búa til einhverja nýja fídusa sem enginn þarf í raun á að halda og gera kerfin svo flókin að engin skilur neitt í neinu.
Annars er ég mest hissa að hafa komist upp með að varpa því fram á þessum fundi í gær að Reykjavíkurbær hafi eignast Hitaveitu fyrir runu heppilegra tilviljanna og fullur salur af fólk yppti bara öxlum og sagði: „já, ætli það sé ekki bara hárrétt!“ – Skrítið.
* * *
Vonandi rætist sú ósk Bryndísar að við getum farið saman á völlinn að ári. Þó ekki í annarri deildinni, heldur í þeirri fyrstu. Grimsby-menn eru seigir og munu eflaust ná að fella hið fúla Stók. Verra er hvað Luton gengur hægt að draga á QPR. Það endar á að við verðum að taka stefnuna á að ná Bristol City í staðinn. Annars er mikilvægur leikur á laugardaginn – Port Vale á útivelli. Vonandi hefur umræðan um möguleg kaup íslenskra sægreifa á Port Vale þau áhrif að heimamenn koðni niður. Það myndi ég a.m.k. gera ef ég hefði ástæðu til að ætla að íslenskir kvótaprinsar hyggðust kaupa mig…
* * *
Steinunn sem liggur veik heima og bloggar væntanlega ekki í bráð, lét plata sig í kosningastjórn VG í Reykjavík. Það má því teljast nokkuð ljóst að það mun ekki sjást mikið til hennar fram á vor. Þó stendur þorrablót fyrir dyrum á laugardaginn. Ég hef verið skikkaður í að taka til í íbúðinni – til þess eins að bera inn í hana hákarl! Hvílík tímasóun!
íhm