Gettu betur o.fl.
Fór með Svenna til Reykjanesbæjar í gær til að fylgjast með upptökum á Gettu betur og til að halda honum selskap á leiðinni. Sjaldan hefur maður nú orðið vitni að svo ójöfnum leik í þessari keppni, en það kom svo sem ekki á óvart.
Drátturinn í undanúrslitin var áhugaverður og hugsanlega sjáum við nú fram á þrjár jafnar og spennandi keppnir – undanúrslitaleikina tvo og úrslitin. Öll liðin fjögur ættu að geta unnið í ár. Auðvitað þyrftu þá sum liðanna að bæta sig aðeins, en á móti kemur að erfitt er að dæma lið eftir frammistöðu á móti mjög slökum andstæðingum. Þannig hefði MS eflaust verið með athyglina í betra lagi í gær ef andstæðingarnir hefðu veitt þeim einhverja keppni.
Stóra spurningin hlýtur að vera hvaða áhrif þyngri spurningar kunna að hafa – því væntanlega þyngjast spurningar eitthvað á milli fjórðungsúrslita og undanúrslita. Þá mun reyna meira á það hversu djúpt fróðleikurinn ristir. Ég leyfi mér að spá því að munurinn verði ekki nema 2-3 stig á hvorn veginn sem er í báðum undanúrslitakeppnum. Það lið sem hefur bestar taugar mun svo vinna keppnina að lokum.
* * *
Nördaskapur minn er nálega fullkomnaður. Palli fór að spá í efni sem hægt væri að nota við að skreyta kosningamiðstöð VG og við duttum niður í rannsóknir á umferðarmerkjum. (Undir sterkum áhrifum frá nördabloggfærslu Ormsins um þjónustumerki Vegagerðarinnar.)
Mikið óskaplega er mikið til af skemmtilegum umferðarmerkjum! Og mikið óskaplega eru margir einstaklingar að halda úti síðum um umferðarmerki frá ýmsum heimshornum á netinu. Flottastur er samt Belginn sem ber saman: „Menn að störfum“; „Varist grjóthrun“ og „Börn á ferð“-skilti frá hinum og þessum löndum. Á ljós kemur að hér eru mikil færi til samanburðarrannsókna. T.d. er mjög mismunandi eftir löndum og menningarsvæðum hvort börnin eru jafnstór, hvort kynið gengur framar o.s.frv. – Þá eru íslensk „menn að störfum“-skilti meðal fárra sem sýna verkamanninn með hjálm. (Sjálfur hef ég reyndar aldrei séð þá skiltagerð.
Þetta skiltaæði rifjaði upp fyrir mér götuljósadeilurnar í Berlín sem stóðu hvað hæst fyrir um fimm árum þegar ég heimsótti borgina vegna e-r ráðstefnu. Þá voru íbúar gömlu austur-berlínar búnir að stofna samtök til varnar gömlu rauðu og grænu-köllunum á gangbrautarljósunum. Austur-þýsku karlarnir voru feitir og pattaralegir með hatt, en þeir vestur-þýsku voru kynlausir, ópersónulegir og staðlaðir.
Austur-þjóðverjar höfðu látið ýmislegt yfir sig ganga við sameininguna. Söfn landsins slógu striki yfir fimmtíu ára sögu þeirra – líkt og hún hefði ekki gerst og að hugtakið „Þjóðverji“ vísaði bara til íbúa vesturhlutans. Þeir máttu þola að menntun þeirra væri gengisfelld og þeir þannig settir í 2. sætið í akademísku samfélagi án sýnilegrar ástæðu og svo mætti lengi telja. – En í deilunni um gangbrautarljósin ætluðu þeir ekki að klikka!
Ég hef ekki farið til Berlínar síðan. Vonandi má ennþá finna pattaralega kalla með hatta á gangbrautarljósum í borginni. Fokkíng Evrópusambandið má ekki vinna alltaf!
* * *
Norðfirðingaball í kvöld á Players. Sú Ellen og Dúkkulísurnar spila. Velkomin til níunda áratugarins! – Ég mæti.
* * *
Safamýrarstórveldið verður í eldlínunni í kvöld. Deildarbikarleikur í fótboltanum gegn Aftureldingu (ég á ennþá afskaplega erfitt með að viðurkenna Aftureldingu sem alvöru lið í fótboltanum). Á handboltanum er svo leikur gegn KA í Safamýri. Miðað við prógrammið sem eftir er, þá er eins gott að þessi leikur vinnist. Að öðrum kosti erum við alls ekki öruggir í úrslitakeppnina. (Auk þess megum við ekki lenda í 8.sæti, Valsmenn eru koss dauðans fyrir Fram í handbolta.)