Virkjað við Loch Ness
Merkilegar fréttir fyrir tækninörda. Orkufyrirtækið Scottish & Southern Energy, SSE, stefnir að því að reisa fyrstu stóru vatnsaflsvirkjunina sem gerð hefur verið þar í landi í meira en fjóra áratugi. Virkjunin yrði við suðausturenda hins fræga Loch Ness-stöðuvatns, þannig að hugsanlega munu skrímslaáhugamenn reka upp ramakvein vegna framkvæmdanna.
Af brotakenndum fréttum í skosku blöðunum er að skilja að ætlunin sé að safna saman vatni úr einhverjum sprænum og smáám á heiðunum fyrir ofan vatnið og að sjálft uppistöðulónið yrði í 600 metra hæð yfir vatninu, sem myndi þýða mestu fallhæð í breskri vatnsaflsvirkjun. Sjálft stöðvarhúsið yrði neðanjarðar og viðbúið að reynt yrði að koma sem flestum rafmagnslínum í jörð, enda er Loch Ness-svæðið dýrðlega fallegt og vinsælt ferðamannahérað.
SSE áætlar að virkjunin muni framleiða á bilinu 50-100 megavött, eftir því hvaða útfærsla verður valin. Miðað við fallhæðina er því ljóst að þetta verður vatnslítil virkjun. Athyglisvert er að Skotarnir áætla að 100 megavöttin samsvari raforkunotkun 40.000 heimila. Spurning hvernig sá samanburður kemur út miðað við Ísland? Mig minnir að höfuðborgarsvæðið að frátalinni stóriðju notu 160 megavött.
Meira um þetta síðar…