Virkjanir og spurningakeppni
Er hægt að hugsa sér skemmtilegra umræðuefni en virkjanir eða spurningakeppnir? Tja, það væri þá helst spurningakeppnir þar sem virkjanir koma við sögu!
Rakst á kostulega frétt úr Þjóðviljanum þri. 30. mars 1976, skrifaða af blaðamanninum GFr (Guðjóni Friðrikssyni væntanlega). Hún er kostuleg, því auk þess að vera fróðleg fyrir áhugamenn um raforkusögu þá sýnir hún fram á það hversu alvarlega menn hafa alltaf tekið spurningakeppnir í sjónvarpi. Spurningarleikir eru dauðans alvara… (leturbreytingar í greininni eru mínar).
Hvert er elsta vatnsorkuver Vestfjarða?
Á laugardaginn hóf nýr spurningaþáttur göngu sína í sjónvarpi undir stjórn Jóns ísgeirssonar. Hann heitir Kjördæmin keppa og í fyrsta þættinum kepptu Reykjaneskjördæmi og Suðurlandskjördæmi. Mjótt var á mununum og lauk viðureigninni svo að Suðurland bar sigur úr býtum, með eins stigs mun. En nú er komið babb í bátinn. Ein spurningin hljóðaði svo: Hvert er elsta vatnsorkuverið á Vestfjörðum? Lið Suðurlands svaraði henni á þá leið að það væri Fossavatnsvirkjun í Engidal í Skutulsfirði en Reykjaneskjördæmi nefndi Patreksfjörð. Svar Sunnlendinga var úrskurðað rétt, en nú hafa margir gert athugasemd við það og einn þingmanna reyknesinga hefur lagt fram kæru til sjónvarpsins og farið fram á að svar reyknesinga verði úrskurðað rétt.
Við snérum okkur til Helga Skúla Kjartanssonar, sem samdi spurningarnar, og báðum hann um nánari skýringar. Hann sagðist hafa samið spurningar sínar eftir yfirliti Orkustofnunar um vatnsorkuver á Vestfjörðum og skv. því væri Fossavatnsvirkjun sem tekin var í notkun 1937, elsta virkjunin. Hins vegar hefði Litladalsá á Geirseyri við Patreksfjörð verið virkjuð af einkaaðila árið 1911 og lagt rafmagn úr henni í mörg hús þar á staðnum og árið 1919 virkjað á öðrum stað í sömu á. Ennfremur hefði verið virkjað á Bíldudal árið 1918. Engin þessara virkjana væri lengur í notkun. Litladalsárvirkjun hefði verið lögð niður um eða fyrir 1950 og virkjunin á Bíldudal sennilega um 1958. Þess vegna væru þetta ekki elstu varnsorkuver (svo) á Vestfjörðum þó að þau væru fyrstu verin.
Þetta væri sambærilegt við það að spurt væri um elsta skip Eimskipafélags Íslands; þá væri vitanlega átt við skip sem nú væru í eigu félagsins.
Helgi Skúli sagði að eftir að formleg kvörtun hefði borist frá þingmanninum hefði Jón Þórarinsson dagskrárstjóri kallað sig, Jón ísgeirsson og Tage Ammendrup saman á fund og þeir hlustað á þáttinn á ný og komist að þeirri niðurstöðu sem að framan greinir.
Nú geta menn spurt sjálfan sig hvað hafi vakað fyrir aðstandendum þáttarins; voru þeir að fiska eftir fyrsta vatnsorkuverinu og vissu ekki betur, en voru svo heppnir að orða spurninguna á þann veg að geta snúið sig út úr málinu? Eða eru þeir svona lúmskir í að orða spurningar?
– GFr
Myndatexti: Valhöll á Geirseyri við Patreksfjörð. Á því húsi bjó Pétur A. Ólafsson sem reisti fyrsta vatnsorkuver á Vestfjörðum árið 1911 þó að deilur kunni að standa um það hvort það sé hið elsta. Pétur var mikill framfaramaður og lagði m.a. síma um Geirseyri 1903. Hann fluttist 1917 til Reykjavíkur og reisti sér einbýlishúsið Valhöll við Suðurgötu sem heitir eftir þessu húsi.