…þessi sekúndubrot sem ég flýt…
Það er alltaf jafn óþægilegt að upplifa það þegar tíminn hægir á sér sekúndubrotin áður en óhappið gerist – bláa kannan brotnar á gólfinu, bíllinn keyrir aftan á næsta bíl á undan, barn rúllar fram af borðbrún o.s.frv.
Á fótboltanum í gær (sem ég mætti í þrátt fyrir brotnu tánna – já, ég veit að ég er hetja) hægði tíminn skyndilega á sér og við hinir sáum allir eins og í hægspilun þegar Bjartur og Þórir stukku báðir upp í skallabolti, staðráðnir í að vinna skallaeinvígið. Við heyrðum líka allir dynkinn þegar hausarnir á þeim smullu saman af krafti og allir vissu að þetta yrði ljótt. Mjög ljótt.
Bjartur vankaðist bara lítillega, en Þóri blæddi og það mikið. Það litla sem ég sá af sárinu virtist hann hafa fengið skurð ofan við nefið og inn á aðra augabrúnina. Þó að blóðið hafi fossað þarf skurðurinn í sjálfu sér ekki að hafa verið djúpur. Það er svo helvíti mikið blóð á þessu svæði eins og allir vita sem séð hafa almennilegar blóðnasir. Bjartur skutlaði Þóri á Slysó, þar sem hann var væntanlega saumaður saman.
Eina ferðina enn kom í ljós að ég er liðónýtur þegar kemur að slysum. Við hinir í hópnum snerumst í hringi í leit að pappír eða handklæði til að stoppa blæðinguna, en gerðum ekkert annað en að vera fyrir. Það var ekki fyrr en umsjónarkona íþróttahússins kom okkur til hjálpar að tókst að draga fram handklæði til að fórna. Vonandi lendi ég aldrei í að verða fyrsti maður á slysstað…
Tilhugsunin um þessi hæggengu sekúndubrot minnti mig á þá stund þegar ég hef orðið hræddastur á ævinni. Það var eitt sumarið þegar ég var fenginn til að líta eftir krakkagrísum í sumarskólanum. Við vorum með aðsetur í íþróttahúsi Vörðuskóla og þar inni gátu krakkarnir leikið sér, einkum ef veðrið var leiðinlegt. Dag einn var ég að reka gríslingana í að taka til, koma sér í mat eða eitthvað slíkt – en hópur af strákum vildi ekki gegna og hélt áfram að hlaupa að einhverri pulluhrúgu og hoppa út í hana miðja – líkt og Súpermann á flugi.
„Hættið þessu og komið ykkur fram á gang“ – hrópaði ég og lagði áherslu á orð mín með því að sparka í eina pulluna sem skaust í burtu. Um leið leit ég upp og sá einn pjakkinn koma fljúgandi í loftinu. Þegar hann lenti 2-3 sekúndubrotum síðar (eða klukkustund seinna frá mínu sjónarhorni) slengdi hann vitaskuld andlitinu beint í gólfið. Óðinn má vita hversu mikið blóð var runnið úr nösunum á honum áður en hann svo mikið sem fattaði að byrja að orga.
Milli þess sem ég reyndi að reka hina krakkana í burtu, kalla á hjálp, ná í gólftusku o.s.frv. – heyrði ég ekkert annað en rödd Elínar Hirst segja: „Lögreglan yfirheyrir nú pilt um tvítugt í tengslum við voveiflegan dauða sjö ára pilts í sumarskóla á vegum Reykjavíkurborgar. Varðstjóri vildi ekkert um málið segja, en löglærðir menn sem fréttastofan ræddi við í dag telja fullvíst að atvikið verði meðhöndlað sem alvarleg líkamsárás – en við slíkum brotum liggur allt að átján ára fangelsi…“
Auðvitað hresstist grísinn og var kominn aftur daginn eftir, en það leið langur tími áður en hann fékkst til að svo mikið sem yrða á mig. Og það var svo sem auðvitað að þetta var einn af bestu krökkunum, sem alltaf var stilltur, hress og skemmtilegur. Heimurinn er ranglátur.
* * *
Um fótbolta verður ekki talað á þessum vettvangi. Ég er foxillur.
* * *
Farinn á ættarmót. Ekkert blogg í bráð.