…hárið eins og postulín(?)
Jæja, þetta var bara hörkufínt ættarmót á Suðurlandinu, þótt sólin hafi ekki látið sjá sig í þeim mæli sem vonast hafði verið til. Á ljós kom að ættingjar Steinunnar í föðurætt eru upp til hópa hið ágætasta fólk sem hefur gaman af því að skrafa og rífast um pólitík fram á rauða nótt. Þá liggur það ágætlega fyrir þeim að elda lambalæri og það mikið af þeim. Hins vegar hef ég aldrei komist í tæri við jafn söngheftan hóp af fólki.
Nú er besti og frægasti bloggarinn ekki mikill söngfugl. Læt yfirleitt nægja að bæra varirnar á réttum stöðum, enda kann ég flesta texta ágætlega. En þótt ég sé lítill söngmaður sjálfur þá þekki ég vondan söng þegar ég heyri hann – og þarna var nóg um slíkt.
Fyrstu mistök skipuleggjendanna fólust í því að telja það vera nóg að setja inn í dagskrána: „brekkusöngur kl. 23:30“ – án þess að redda forsöngvara eða tryggja þátttöku tónlistarmanna. Gummi frændi Steinunnar var raunar mættur með gítar og gat glamrað ýmislegt, en betur má ef duga skal. Skall svo á heljarlöng dagskrá þar sem mismunandi hópar kepptust við að syngja 2-3 lög í einu og þá sjaldan að allir reyndu að gaula sama lagið – þá skyldi alltaf einhverjum í hópnum takast að vera einu erindi á undan. Eftir drykklanga stund varð svo úr að einn í hópnum tók af skarið og gerðist forsöngvari. Það var góð hugmynd að því leyti að hann var bæði röggsamur og með styrka rödd – en kunni illu heilli enga texta. Það varð því hálf kindarleg stemningin hjá helmingi veislugesta þegar hann heyrði hinn helminginn taka af krafti undir með forsöngvaranum: „…hörund þitt eins og silki – hárið eins og postul-í-í-í-n.“
* * *
íkvað að nú gengi þetta ekki lengur og blæddi í áskrift að greinasafni The Independent. Ætti þá loksins aftur að geta lesið greinar snillingsins Marks Steel mér til ánægju. Hver veit nema stöku snjallar tilvitnanir rati inn á þessa síðu. Það væri þá ekki í fyrsta sinn.
* * *
Eitthvað hefur Guðmundur Rúnar Svansson verið að misskilja í sagnfræðinámi sínu úr því að hann telur að hugtakið „endurskoðunarsinni“ vísi einungis til róttækra bandarískra sagnfræðinga á sjöunda og áttunda áratugnum sem tókust á við ýmsar mýtur frá upphafsárum kalda stríðsins. Sú notkun á hugtakinu er auðvitað bara ein af mörgum og býsna þröng.
Orðið „endurskoðunarsinni“ er nú býsna auðskilið hugtak og vísar einfaldlega til einstaklings sem telur ríkjandi söguskoðun ranga og vill skoða og túlka söguna upp á nýtt til að leiðrétta skekkjuna. Margt af því sem nú er skrifað á sviði fornleifafræði verður að teljast í anda endurskoðunarsinna, sama gildir um þá sagnfræðinga sem tekið hafa til endurskoðunar viðteknar túlkanir á hugtökum og fyrirbærum á borð við þjóðerni og þjóðernishyggju. Þegar íslenskir sagnfræðingar koma fram og segja þjóðinni að Danir hafi nú verið harla góðir nýlenduherrar og Íslendingar verið sjálfum sér verstir – þá er það vissulega nokkurs konar endurskoðunarstefna (þótt nú megi sú afstaða teljast svo almenn að senn mun sá teljast endurskoðunarsinni sem heldur því fram að Íslendingar hafi verið kúgaðir af Dönum).
Á ljósi þessa felst kjánaskapur Bush forseta því ekki í því að nota hugtakið endurskoðunarsinni, heldur hinu að hann noti það sem skammarheiti eins og að það felist í því glæpur að efast um viðtekin sannindi. En líklega er það einmitt það sem Bush á við. Það þykir ekki fínt í Biblíubeltinu að leyfa sér að efast…