Draumfarir samlyndra hjóna… Asanaleg hugtök

Draumfarir samlyndra hjóna…

Asanaleg hugtök – „draumaprins“ eða „draumaprinsessa“. Af þeim mætti ætla að fólkið sem maður er skotinn í­ smjúgi auðveldlega inn í­ draumfarir manns og leiki þar aðalhlutverk öllum stundum. Veruleikinn er allt annar. Það er nefnilega fjandanum erfiðara að fá fastráðningu á draumasviðinu.

Nú man ég sjaldnast drauma, nema þá ákaflega óljóst. Þá sjaldan ég get gert mér heillega mynd af draumunum mí­num þá eru það í­ flestum tilvikum einhverjar absúrd-sitjúasjónir sem hvaða sálfræðingur eða geðlæknir sem er myndi skemmta sér vel við að komast í­. Öðru hvoru dreymir mig „venjulega“ drauma þar sem fjölskylda, vinir og fólk sem ég þekki helst úr sjónvarpinu kemur fyrir í­ aukahlutverkum. Steinunn er nánast aldrei með í­ þessum draumum, hvað þá að hún gegni mikilvægu hlutverki.

Sömu sögu er að segja af henni. Það er sárasjaldgæft að Steinunni dreymi mig, raunar svo sjaldgæft að hún hefur alltaf orð á því­ þegar það gerist. Hins vegar hafa þeir draumar allir ákaflega svipuð einkenni, því­ í­ þeim er ég hinn versti durtur sem bregst henni. Dæmi: húsið fyllist af vatni vegna þess að vatnsrör er sprungið, Steinunn stendur yfir vaskinum og berst við lekann og hrópar á mig að hringja í­ pí­para. Ég sit hins vegar sem fastast við sjónvarpið, segist vera að horfa á fótbolta og muni kannski bjalla í­ hálfleik. – Mikið er gott að maður trúir ekki á drauma og að engin draumráðningabók er til á heimilinu.

* * *

Hr. Svansson er eitthvað fojj yfir að ég hafi í­ gær á þessum vettvangi notað fullt nafn hans – nafnið sem hann ber í­ Þjóðskrá og sem ég heyrði hann fyrst kynntan sem. Það er skrí­tið.

Ég hef samúð með börnum sem skí­rð eru ónefnum af foreldrum sí­num eða þeim sem vilja ekki una gælunöfnum sem reynt er að klí­na á þá. Þannig finnst mér alveg sjálfsagt að menn sem heita Guðmundur ráði því­ sjálfir hvort þeir eru kallaðir Gummi, Gvendur eða Gúndi (þótt ég myndi lí­klega ekki fást til að nota eitthvað á borð við Bóbó eða Lilli-bró.

Á hinn bóginn hef ég enga samúð með fullorðnu fólki sem er með einhverja svona dynti. Ef fornöfn, millinöfn eða ættarnöfn fara í­ taugarnar á fólki, þá á það bara að vappa niðrá Hagstofu og fá því­ breytt. – Og, já ég tala um Þorgeir Þorgeirsson en ekki Þorgeirson. Daginn sem hann vinnur málið gegn Hagstofunni og fær því­ breytt skal ég laga mig að því­, en ekki fyrr.