Auðvitað fór umræðan um hvalveiðarnar í sama fyrirsjáanlega farið og alltaf þegar farið er að ræða þessi mál hér á landi. Íslendingar fyllast réttlátri reiði í garð heimskra útlendinga sem vilja persónugera hvalina og gefa þeim mennska eiginleika. Eins kaldhæðnislegt og það nú annars er bregðast margir Íslendingar nákvæmlega eins við – undir öfugum formerkjum þó – og heimta að Keikó verði breytt í kjötbollur.
Hvort er kjánalegra að krefjast þess að dýrum sé þyrmt vegna þess að þau séu gáfuð – eða að heimta að þau séu étin vegna þess að þau séu heimsk?
Jújú, nú má örugglega þrefa lengi um það hversu stórir hvalastofnarnir séu, hvort hvalir éti og mikið af þorskseyðum o.s.frv. – verði mönnum af góðu ef einhver nennir því. Það eru hins vegar hræsnis-ásakanirnar sem fara mest í taugarnar á mér.
Tökum sem dæmi þetta nýlegt blogg Erlings um málið. Þar segir m.a.:
Af einhverjum ástæðum er ég ekki alveg að dansa með hvalafriðurnarmönnum. Mér finnst þarna vera á ferðinni heilmikil hræsni. Fólki finnst ekkert athugavert við að mótmæla hvalveiðum og fara svo út í búð að kaupa túnsfisksalat, til dæmis: Þó er túnfiskur í útrýmingarhættu. En hann er alltaf til í dósum svo það er sennilega allt í lagi þá.
Aha. Hér sjáum við skemmtilega röksemdafærslu – „Sumir útlendingar mótmæla hvalveiðum. Túnfiskur er étinn í útlöndum. Ergo: fólk sem mótmælir hvalveiðum gúffar í sig túnfiski í öll mál.“ – Gaman væri að vita hvort kollegi minn af Suðurlandinu hafi gert sérstaka könnun á innkaupakörfum Grænfriðunga eða hvort þetta séu bara almennir sleggjudómar.
Jafnframt er fullyrðingin „Þó er túnfiskur í útrýmingarhættu“ merkileg. Er ekki einmitt tilfellið að víða í heiminum séu túnfiskstofnar ofveiddir en annars staðar nytjaðir af skynsemi? Eru þetta ekki nákvæmlega sömu fordómar og Íslendingar telja sínar hvalveiðar verða fyrir?
Og áfram heldur pistillinn:
Hákarlar eru í útrýmingarhættu og enginn tekur upp þráðinn fyrir þá. Fólk bendir á að hvalir sinni afkvæmum sínum. Takk fyrir, það gera líka kýr og kindur sem andhvalveiðisinnar borða með bestu lyst. Hvalir borða líka seli ef þeir geta. Jafnvel kópa. En óheppni hákarlsins felst í að hann hefur markaðssett sig svolítið illa. Hákarl er nefnilega illur. Hann er með beittar tennur og borðar fólk ef hann kemst í það. Þess vegna má hann alveg fara.
Tekur enginn upp þráðinn fyrir hákarla? Ja, nema þá væntanlega Erlingur? Þetta eru bráðskemmtilegir fordómar í garð umhverfisverndarsamtaka. Fólk sem helgar líf sitt því að berjast fyrir umhverfisvernd hefur sem sagt bara áhuga á litlum, loðnum og krúttlegum dýrum! Greenpeace var stofnað til verndar selskópum, hömstrum og naggrísum. Merkilegur andskoti!
Auðvitað er þetta fjarri sanni. Það er til fólk sem berst fyrir verndun katta, aðrir setja friðun fugla eða fiska á oddinn og svo mætti lengi telja. Er hægt að vera mikið hrokafyllri en að slá því föstu að allir útlendingar sem hafi skoðun á því hvernig dýrastofnar í höfunum séu nytjaðir séu bara einhverjir vitleysingar sem hafi látið glepjast af teiknimyndum um sæt smáhveli?
Og hvað með það þó viðkomandi aðilar hafi ekki snúið til varnar fyrir hákarlastofna? Er það sem sagt bannað að berjast gegn veiðum á einu dýri vegna þess að maður er ekki búinn að berjast gegn einhverju öðru fyrst? Menn verða kannski að mótmæla hákarlaveiðum á undan hvalveiðum vegna þess að Hí-karl er á undan HV-ölum í stafrófinu? En verða menn þá ekki að vera búnir að mótmæla veiðum á Hí-meri áður en kemur að hákörlum?
Næsta skrefið væri kannski að setja vörð fyrir framan öll mótmæli dýraverndunarsinna og pikka út þá sem ekki mega vera með. „Hey, þú – hvað þykist þú geta haft skoðun á gírafadrápi í Gabon? Ekki mættir þú á fimmtudaginn til að andæfa pokarottuveiðum í Uruguay… – hræsnari!“