Klukkan fimm að morgni, laugardaginn þrítugasta ágúst, skríða Steinunn og Stefán framúr og búa sig undir ferðalagið mikla. Kvöldið áður höfðu bæði tínt til vegabréfin sín, sem verður að endurnýja á næsta ári. Á passamyndinni sinni er Stefán tiltölulega grannur ungur MR-ingur með velsnyrtar krullur. Steinunn er pattaralegur MH-ingur í hippafötum. Fljótt á litið má áætla að Stefán hafi bætt á sig fimmtán kílóum á þessum árum, en Steinunn tapað tíu. Það gerir fimm kíló í plús, sem sýnir að heimilið að Mánagötu 24 hefur ekki farið varhluta af góðærinu undir stjórn Davíðs Oddssonar.
Páll, faðir besta og frægasta bloggarans, mætir á nýja Suzuki-jeppanum sem gömlu hjónin keyptu sér á dögunum. Jeppinn er skýrasta dæmið um að gildismat borgarastéttarinnar sé að ná yfirhöndinni á þeim bænum. Besta og frægasta bloggarann dauðlangar að stríða föður sínum á þessu – spyrja hvenær eigi að ganga í Rotary eða byrja í golfinu? Stillir sig þó um það, enda þægilegt að fá skutl suður til Keflavíkur og losna við bakpokaskrílinn í Flugleiðarútunni. Sú var tíðin að fjölskylda besta bloggarans átti ekki sjónvarp og þegar loksins var fjárfest í slíkum grip, þá var það notað svart/hvítt tæki [reyndar fyrir peninga sem þessi sami bloggari vann í happadrætti ríkissjóðs út á einhver ríkisskuldabréf sem velviljaður ættingi sem ekki skyldi samhengið milli óverðtryggðs sparnaðar og óðaverðbólgu gaf í skírnargjöf, í þeirri von að kosta mætti barnið til náms í framtíðinni – innskotssetningu lýkur] – helvítis neyslukapphlaup…
Djöflaeyjan yfirgefin
Nema hvað – Stefán og Steinunn spæna af stað til Keflavíkur og taka fram úr rútunni á leiðinni. Hah, engar almenningssamgöngur hér! Fyrir vikið er nægur tími í Leifsstöð til að virða fyrir sér „andlit Íslands gagnvart umheiminum“ eins og flugstöðin var einhverju sinni nefnd. Stefán hugsar hlýlega til Matta Matt fyrir að hafa afrekað að reisa þetta fallega mannvirki fyrir rétt rúmlega tvöfalda kostnaðaráætlun. Plebbalegt? Neinei…
Meðal bandarískra háskólanema mun það þykja hin mesta skemmtun að reyna að troða sem flestum inn í litla fólksbíla. Heimsmetið í þessari íþróttagrein er víst einhver fáránlegur fjöldi inn í litla Fólksvagen bjöllu. Líklega hafa methafarnir vösku æft sig á sætunum í flugvél Iceland Express. Stefán gefst fljótlega upp á að berja sig í gegnum amerískan tæknisögudoðrant eftir Tom Hughes. Steinunn var klókari. Hún tók með sér reyfara. Annars tíðindalaust úr háloftunum.
Rúllað í gegnum Kastrup. Upp í næstu lest og út á aðalbrautarstöðinni. Hótelið Ljónið er á Vesturbrúargötu 30 og því í röltfæri við brautarstöðina. Steinunn og Stefán ganga beint í flasið á skúðgöngu Kristjaníu-vina. Þeir mótmæla áformum fasistastjórnarinnar í Danmörku að loka fríríkinu. Eiga ferðalangarnir ungu að hrífast með og halda í kröfugöngu með ferðatöskurnar á bakinu? Tja, það kemur mótmælaganga eftir þessa göngu. Betra að tékka sig inn fyrst.
(Aðrir) túristar eru leiðindapakk
Hótelið er fínt. Pínulítið hráslagalegir gangar, en það er miðsvæðis og í ódýrari kantinum. Fúlir amerískir túristar eru að rífast í móttökunni þegar Steinunn og Stefán mæta á svæðið. Undra sig á því að ekki sé boðið upp á Hilton-herbergi á ódýru gistiheimili. Fyrir vikið tekur þéttvaxna konan í afgreiðslunni strax ástfóstri við íslensku gestina sem virðast ekki ætla að vera með neitt múður. Ekki dregur úr gleði hennar þegar talið berst að Kristjaníu. Svo virðist sem flestir túristar séu bara komnir til að klappa Hafmeyju-ófétinu við höfnina.
Á hótelherberginu gramsar Stefán í töskunni sinni. Bölvar sjálfum sér vel og hressilega fyrir að gleyma myndavélinni heima. Kaupir einnota draslvél frá Kodak. Ekkert ljósmyndafyllerí í þessari ferð.
Steinunn og Stefán fara í langan göngutúr um miðbæinn. Stoppað á hentugum stað í bjór og smörrebröd. Við tækifæri mun besti og frægasti bloggarinn láta fara fram rannsókn á því hvaða efni það sé í danskri lifrarkæfu sem kona hans er svo sólgin í. Það sem eftir lifir ferðar sífrar Steinunn reglulega um að hana langi í meiri lifrarkæfu. Ætli þetta sé spurning um einhver fágæt prótín eða steinefni?
En hvað með Pinochet?
Á Kóngsins-nýjatorgi er búið að setja upp sýningu á vegum ferðamálaráðs Chile. Steinunn og Stefán skoða sýninguna – einkum til að geta stært sig af því á bloggsíðum sínum þegar fram líða stundir. Á ljós kemur að í Chile eru gríðarlegir fjárfestingarmöguleikar fyrir útlenska kapítalista. Ef góðviljaði ættinginn hefði á sínum tíma haft vit á að leggja skírnarpeningana inn á verðtryggðan reikning þá væri besti og frægasti bloggarinn kannski orðinn álfursti í Suður-Ameríku í dag, en hefði að sönnu misst af mörgu því sem hæst bar á dagskrá Ríkissjónvarpsins á árunum 1982-1985.
Steinunn og Stefán taka strikið heim á hótel (no pun intended!) Lesendur þessarar síðu mega giska þrisvar hvort þeirra stoppar við nánast hverja einustu verslun á leiðinni og mátar sólgleraugu, án þess að finna nein sem passa almennilega – á meðan hinu leiðist.
Önkörur við hvert fótmál
Að ráði Þóru systur, sem gjörþekkir Kaupmannahöfn eftir misseris verkfræðiföndur við skólann sem annar hver íslenskur verkfræðinemi hefur stúderað við, var tyrkneski veitingastaðurinn Ankara á Vesturbrúargötu fyrir valinu sem fyrsti kvöldverðarstaðurinn. Við Vesturbrúargötu eru þrír tyrkneskir staðir sem heita þessu sama nafni, þar af gera tveir þeirra kröfu til þess að vera sá tyrkneski veitingastaður á Norðurlöndum sem býr yfir stærsta hlaðborðinu. Hrokafullt? Tja, vonandi byrja veitingamennirnir ekki að blogga, því þá gæti nafnbót sumra verið í hættu…
Neðsti Ankrara-staðurinn (u.þ.b. nr. 21 eða þar um bil) varð fyrir valinu. Hann er æði. Ódýr matur, gott vín og danskættaða magadansmærin var alls ekki eins mikið kitch og búast hefði mátt við. Tyrkir eru að taka yfir Danmörku og gera hana að mun betri stað en fyrr. Íslendinga vantar tilfinnanlega svona 2.000 Tyrki.
Óvæntur svallari
Bjór um daginn, rauðvín með matnum og írskt kaffi á eftir hefði til skamms tíma þýtt að besti og frægasti bloggarinn hefði þurft að bera sína ektakvinnu á bakinu til sængur. Nú hafa hlutirnir hins vegar breyst, því Steinunn er hætt að reykja (7,9,13). Sígarettubindindið tekur á taugarnar, en hefur hins vegar kallað fram áður óþekkt áfengisþol. Brennivínsberserkurinn Steinunn hefur því aldrei þessu vant frumkvæðið að því að taka stefnuna á barinn fyrir svefninn.
Á hæðinni fyrir neðan Hótel Ljón er einn írskur pöbb – eða öllu heldur breskur pöbb sem þykist vera írskur vegna þess að hann selur Guinness á krana og á jafn mikið af írsku viskýi og skosku. Þessi knæpa á mjög eftir að koma við sögu síðar í ferðinni. Íslendingarnir djörfu sitja frameftir nóttu og gerast æ væmnari eftir því sem glösunum fjölgar.
Tjaldið fellur, fyrsta þætti lýkur.