Nú er merking orðanna „íspinni“ og „frostpinni“ nokkuð augljós. En hvað á maður að kalla sjálfan pinnan í íspinnanum? „íspinnapinna“ eða kannski bara „pinna“? Þetta er flókin spurning.
Flestir pinnar af þessu tagi eru úr tré. Sem er slæmt.
Það er slæmt vegna þess að þá er hætt við að maður fari að japla á spýtunni þegari ísinn eða klakinn er búinn. Það gerist síður með plastpinna.
Plastpinna má líka hafa í margvíslegri lögun. Margir muna eftir Breik-pinnunum, sem hægt var að nota sem byggingarkubba. Margir söfnuðu þeim og náðu ótrúlega góðu safni.
Önnur skemmtileg pinnategund var t.d. á kúlutyggjó-ísnum. (Skyldi hann ennþá vera framleiddur?) Það var ís í litlum pappahólki, sem hægt var að reka út úr hólkinum með því að þrýsta á pinna sem stóð út úr honum. Á ísnum var svo tyggjókúla.
Einu sinni voru seldir súkkulaðiíspinnar sem virkuðu eins, nema þar var engin tyggjókúla, heldur voru plastfígúrur inni í ísnum með myndum af ístríks-fígúrum. Ég átti nokkrar svona, einkum Sjóðrík og Óðrík. Þessu er ég öllu búinn að týna eins og svo mörgu öðru.
* * *
Eftir að útskrifarfagnaði rafiðnanema lauk hér á safninu laust um klukkan hjálf tólf í gærkvöldi fór ég á Nelly´s að hitta VG-fólk. Roknastemning á svæðinu sem náði hámarki þegar hópurinn söng Nallann, við nokkra undrun annarra gesta á staðnum. Allir kunnu textann, en þegar reynt var að halda fjöldasöngnum áfram kom í ljós að sönghæfileikum róttæklingaæskunnar eru takmörk sett.
Á Nelly´s var líka sjónvarp í gangi og þar var verið að endursýna Fram-leikinn frá því um daginn. Ég mátti til að horfa aftur á lokamínúturnar og stressið og taugaveikklunin helltist yfir mig á nýjan leik. – Annars er ég kominn með snjalla hugmynd fyrir landsliðsþjálfarana. Hvað með að senda bara Fram-liðið til Þýskalands? Ætlum við hvort sem er að gera nokkuð annað en að pakka í vörn? Það er bitamunur en ekki fjár hvort andstæðingurinn er Þróttur eða þýska landsliðið…