Svenni Guðmars skrifar í fylgiblað Moggans í dag þanka frá Edinborg. Hann hefur nú brennt sig á breska bankakerfinu, sem er jafn skilvirkt nú og á átjándu öld. Ég dauðskammast mín fyrir að hafa ekki varað hann við þessu helvíti, en hélt einhvern veginn að Katie vissi allt um seinagang bankakerfisins. Vonandi hefur Svenni ekki farið að skipta við The Royal Bank of Scotland, en það er versta stofnun í heimi. Þeir gætu meira að segja lært margt um lipurð og þjónustulund hjá íslenska tollinum og er þá mikið sagt.
En grein Svenna gerði það að verkum að ég fór að hugsa um Edinborg og þá sérstaklega betlarana, sem fer bráðum að verða nokkuð kalt – þótt október sé ágætis mánuður þarna suður frá.
Skömmu eftir að ég kom fyrst til Edinborgar flutti annað hvort Tony Blair eða Jack Straw ræðu um að fólk ætti ekki að gefa betlurum peninga. Þess í stað ætti það að gefa opinberum hjálparstofnunum féð. Allir hötuðu Straw og Blair og í kjölfarið kepptust allir Skotar við að gefa betlurum peninga. Það var allt að því að maður íhugaði að droppa út úr skóla, skella sér larfa og rölta um með tóman kaffibolla að sníkja.
Það voru einkum tveir betlarar sem ég gaf peninga – af ákaflega misjöfnum ástæðum þó. Annar þeirra var vinalegur eldri maður, sem þóttist alltaf verða himinlifandi þegar einhver gaukaði lítilræði að honum. Standard þakkarkveðjan hans var: „Thank you sir! You´re a gentleman and a scholar!“ Það hefur mér upp frá því fundist það vinalegasta sem hægt er að segja við nokkurn mann á enskri tungu.
Hinn uppáhaldsbetlarinn minn var með nokkuð aðra nálgun. Hann var rytjulegur, um fertugt og augljóslega súrrandi geðveikur eða stöðugt á spítti. Þegar fólk nálgaðist byrjaði hann að kalla og láta vita af sér – sagðist vera fátækur, atvinnulaus, á götunni og almennt grátt leikinn.
Ef viðkomandi stoppaði og gaf honum aur, umlaði hann einhver þakkarorð – þó helst ekki ef um minna en pund var að ræða. En vei þeim sem strunsuðu fram hjá! Þeir fengu gusurnar af svívirðingum – einkum háskólastúdentarnir: „Feiti pabbastrákur, kókaínhaus, drullusokkur og aumingi sem þykist hafinn yfir allt og alla! Ég er viss um að þú lætur taka þig í…“ – og við stelpurnar: „Ríka drusla sem færð allt upp í hendurnar og skilur ekki neitt um lífið og lætur hvern sem er … þér – vonandi færðu sýfillis *%&%$ %&/*? þín!“
Einhverra hluta vegna fékk þessi betlari ekki peninga frá mörgum – en aðdáendahópurinn var þeim mun tryggari…
Jamm