Á ég að fara á bókamarkaðinn hans Braga í gamla bankaútibúinu við Hlemm?
Gegn því eru ýmis rök:
i) Ég hef ekkert við fleiri bækur að gera.
ii) Ég hef ekkert pláss fyrir fleiri bækur.
iii) Ég hef margt skynsamlegra við peningana að gera, s.s. að borga reikninga.
En á hinn bóginn er gaman að fara á bókamarkaði og kaupa bækur. Hér er því úr vöndu að ráða.
Annars eru gömul tímarit oft það skemmtilegasta sem hægt er að finna á svona mörkuðum. Um daginn ætlaði ég að koma pappírsdrasli niður í geymslu, en komst aldrei lengra en að fara að blaða í gömlum árgöngum af „Syrpu“, sem var sérkennilegt tímarit. Þar voru dæmigerðar greinar sem maður hefði vænst þess að sjá í Vikunni, s.s. um hannyrðir og bakstur. Þar voru líka þýddar smásögur eftir góða erlenda rithöfunda, greinar um bókmenntir og svo vangaveltur um skipulagsmál og módernisma. – Þetta var svo kryddað með nettum sósíalisma. Skemmtilegt!
* * *
Steinunn stendur í ströngu í félagsmálavafstri. Hún sækist eftir nýju embætti á vegum MS-félagsins, en það mun tæpast vinnast baráttulaust. Aðalfundurinn á laugardaginn verður skrautlegur.
* * *
Luton í kvöld kl. 19 á Ölveri eða Sportbarnum í Glæsibæ (fer eftir því hvorir sýna leikinn með hljóði). Sigur gegn Tranmere myndi setja okkur í ágæta stöðu í deildinni. Illu heilli hefur liðið verið gjarnt á að fá á sig mörk á lokamínútunum og henda þannig frá sér unnum leikjum…
* * *
íbúðin mín á Hringbrautinni er auglýst til sölu í fasteignablaði Moggans í dag. Er einhver sem vill kaupa 49 fermetra íbúð á besta stað (+ bílastæði í bílskýli)? ísett verð 9,5 millur.
Það getur nú ekki verið dónalegt að búa í fyrrum íbúð besta bloggarans? Einu sinni reyndi ég að kaupa íbúð, meðal annars vegna þess að Mike Pollock bjó í henni. Mike er töffari.
Og talandi um Mike Pollock. Einhverju sinni ætlaði Félag framhaldsskólanema að efna til ljóðasamkeppni. Barði bekkjarbróðir (í seinni tíð frægur fyrir Bang Gang) lenti í undirbúningsnefndinni. Hann setti þar fram kröfur um að Mike Pollock yrði settur í dómnefndina „sem fulltrúi alþýðunnar gegn menntasnobbinu“.
Þessi sakleysislega og snjalla hugmynd gerði hins vegar listap****** í nefndinni foxillar. (Gott ef það var ekki MH-ingur og FB-ingur með í nefndinni.) Allir fundir leystust upp í hávaðarifrildi og það er eins og mig minnir að ljóðasamkeppnin hafi verið blásin af frekar en að samþykkja Pollockinn í dómarasætið.
…ekki það að Mike Pollock hefði átt í nokkrum vandræðum með að leggja mat á tepruleg táningsstúlkuljóð. – Þetta eru asnar Barði!