Ég er stoltur af konunni minni núna. Raunar er ég meira en stoltur – ég er óþolandi montinn!
Aðalfundur MS-félagsins var haldinn í gær. Og þvílíkur fundur – fjórir og hálfur klukkutími, rifist um flest og tekist á um nánast öll embætti. Það voru meira að segja kosningar um félagslegan skoðunarmann reikninga.
MS-félagið hefur í mörg ár logað stafnanna á milli. Félög sjúklinga og aðstandenda þeirra lenda oft í svona stöðu. Á því eru margar skýringar. Á annað félagsstarf (s.s. stjórnmálafélög og verkalýðsfélög) raðast einkum fólk með áhuga og reynslu af félagsmálum, en þegar kemur að sjúklingafélögunum hafa menn sjaldnast val. Þetta reynsluleysi kemur oft fram í mikilli viðkvæmni fyrir gagnrýni og allar deilur verða persónulegar. Og í öðrum samtökum gildir það að ef menn verða ósáttir geta þeir einfaldlega hætt að starfa í viðkomandi félagi. Fólk hættir hins vegar ekki að vera með MS þótt það tapi kosningu…
Það er tilgangslaust að rekja það hérna um hvað deilurnar innan MS-félagsins snúast – líklega snúast þær um mest lítið eins og svo algengt er um deilur. Og það er enginn einn aðili sem ber ábyrgðina á þeim – það er aldrei þannig.
En eftir stendur að innan félagsins var ósætti. Fyrir aðalfundinn hafði kvisast út að kosið yrði um formennskuna og að líklega yrði kosið í stjórn líka.
Steinunn sat í stjórninni síðustu tvö ár, en ákvað að sækjast ekki eftir endurkjöri. Fyrir rúmri viku ákvað hún hins vegar að bjóða sig fram sem fulltrúi félagsins í aðalstjórn Öryrkjabandalagsins. Þar sat fyrir Sigríður Hrönn Elíasdóttir.
Sigríður Hrönn hafði lýst yfir að hún vildi sitja áfram í þessu embætti og hafði til þess stuðnings formanns félagsins. Tilraunir til að tala Steinunni ofan af framboði skiluðu hins vegar engum árangri og því stefndi í hörkuslag.
Þegar fundurinn hófst klukkan ellefu var ljóst að metaðsókn yrði. Um 200 manns voru mættir, sem er ótrúleg mæting. Það var líka ljóst að báðir formannsframbjóðendurnir höfðu smalað rækilega.
Vilborg formaður og Sigríður Hrönn gerðu sjálfum sér engan greiða í byrjun fundar. Formaðurinn með því að breyta skýrslu stjórnar í framboðsræðu fyrir sjálfa sig og stjórnina. Sigríður Hrönn með því að fá orðið til að kynna reikninga dagvistar MS-félagsins en ausa þess í stað skömmum yfir andstæðinga sína. – Ég held svei mér þá að vondu stjúpurnar í Disney-ævintýrunum séu vinalegri en Sigríður Hrönn í vondu skapi…
Fyrst var formannskjörið. Þar gjörsigraði Sigurbjörg írmannsdóttir sitjandi formann. Fékk raunar tvöfalt fleiri atkvæði. Þar með var tónninn gefinn. Allir stjórnarmenn og þeir sem kynntir voru sem uppástungur stjórnarinnar voru kolfelldir. Þar skipti ekki máli hvort um var að ræða gamla félaga og samstarfsmenn Vilborgar formanns, eða ungar stelpur sem voru til í að vinna með hverjum sem er að hagsmunum félagsins – en höfðu unnið sér það eitt til saka að byrja að vinna fyrir félagið undir stjórn sitjandi formanns. Ekki ýkja sanngjarnt, en svona eru hallarbyltingar oft ósanngjarnar. Ég sárvorkenndi þeim sem þurftu að þola slíka skelli af tilefnislausu.
Þegar komið var að Öryrkjabandalagskosningunni mátti öllum vera ljóst að Sigríður Hrönn myndi teljast heppin að fá fjórðung atkvæða. Þessu gerði hún sér sjálf grein fyrir og dró sig til baka áður en til kosninga kom og þær voru því nánast formsatriði.
Spennufallið eftir fundinn var auðvitað gríðarlegt fyrir Steinunni. Við fögnuðum með því að fara út að borða á Galileó, en það er samt alltaf eitthvað óþægilegt við að fagna sigri sem maður veit að mun skilja eftir sig sárindi hjá öðrum.
ígreiningurinn innan MS-félagsins er að mörgu leyti um málefni, en hann er líka að miklu leyti persónulegur. Stjórnin sem var kosin í gær, á stuðninginn að miklu leyti að þakka þreytu félagsmanna á langvarandi átökum. Ef þessi stjórn getur ekki lægt öldurnar mun þolinmæðin ekki vara lengi.
En Steinunn er langflottust – og nú síðast orðin verkalýðsleiðtogi (enda hægur vandi að líta á Örykjabandalagið sem stéttarfélag)!
* * *
Er ég farinn að ganga of langt í stuðningi mínum við Luton? Fylgdist með landsleiknum í sjónvarpinu í gær. Luton var líka að spila – við Wycombe á heimavelli. Wycombe var 0-1 yfir þegar tíu mínútur voru eftir. Þegar ég skipti svo yfir á textavarpið blasti við mér að Skotarnir væru komnir yfir gegn Litháen, en Luton hefði skorað þrívegis og unnið. Á stað þess að bölva og ragna eins og öll íslenska þjóðin, fagnaði ég! Er eðlilegt að þykja meira um vert að Luton vinni leik í ensku 2. deildinni en að landsliðið komist í umspil í Evrópukeppninni?
* * *
Svakalega var Johnny Depp-myndin í gær slöpp. Hvers vegna tekur maðurinn að sér svona léleg hlutverk, eins og hann á nú að geta verið góður!