Á morgun ætla ég að hitta útibússtjórann í bankanum mínum. Ég ætla að kaupa af honum afnot af peningum í nokkrar vikur eða mánuði (eftir því hversu snöggur ég verð að selja íbúðina mína á Hringbrautinni). Þetta verð ég að gera vegna þess að mennirnir sem eru núna að grafa í sundur garðinn okkar á Mánagötunni og brjóta upp þvottahússgólfið vilja fá greitt og engar refjar. Skiljanlegt viðhorf.
Ef ég væri á morgun að fara að kaupa mér bíl, væri þetta ekkert vandamál. Þá myndi ég fara til Júlíusar Vífils eða einhvers annars bílasala og segja: „Góði herra bílasali, mig vantar bíl og enga stæla – ég kann þá alla!“ Hann myndi fá dollaramerki í augun og bjóða mér kaffi og súkkulaði í þeirri von að geta prangað einhverri dósinni inn á mig – og bara allir sáttir.
Sömu sögu má segja ef ég væri að kaupa mér: föt/rafmagnstæki/geisladiska eða annan neysluvarning.
En um peninga gildir öðru máli. Afnot af peningum fær maður ekki að kaupa nema að undangenginni langri ræðu þess efnis að í raun hafi maður ekkert við þá að gera. Best er að geta búið til sögu um að í raun eigi maður tíu milljónir í ónotuðum seðlum í ferðatösku á háaloftinu sem hægt sé að grípa til hvenær sem er, en að þar sem nýbúið sé að mála stigann vilji maður helst ekki þurfa að æða þangað upp og þess vegna væri fínt að fá sjötíuþúsundkall í yfirdrátt – svona rétt fram í febrúar…
Á hvert sinn sem ég fer á fund bankastjóra minni ég sjálfan mig á þetta – að þeir séu ekki að gera mér neinn greiða með því að lána mér pening, heldur séu menn eins og ég forsenda þess að bankarnir geti þrifist. En einhverra hluta vegna rýkur þessi vissa út í veður og vind um leið og inn á skrifstofuna er komið, ég fer að tafsa og hiksta – nefni lægri upphæð en ég þarf í raun og veru og dreg svo mjög úr því að ég hafi neitt við peningana að gera.
Ætlið það sé til sérstakt fræðiheiti á bankastjórafóbíu?
* * *
Luton er á útivelli gegn Stevenage Borough í kvöld. Ekki í deildinni heldur í 2. umferð í bikarkeppni neðrideildarliða sem að þessu sinni er styrkt af Sendibílastöðinni Þresti (LDV Vans). Stevenage er sannkallað smálið. Þeir eru ekki með í deildarkeppninni, en hafa nokkur ár í röð verið nærri því að komast þangað. írið 1996 vann Stevenage meira að segja utandeildarkeppnina en fékk ekki að færast upp þar sem heimavöllurinn uppfyllti ekki kröfur.
Sömu lið mættust í þessari keppni í fyrra. Þá vann Luton 4:3. Helvítis Íslensk getspá setti þennan leik ekki á Lengjuna (öfugt við ýmsa aðra leiki), það þýðir engin úrslitaþjónusta á Textavarpinu. Vont mál.
* * *
Á gær bankaði sendill frá Póstinum upp á með bókasendingu. Það var bók sem ég pantaði frá Amazon fyrir Steinunni. Hún samanstendur af reynslusögum samkynhneigðra mannfræðinga úr starfi sínu. Allt er nú til.