Fórum á frumsýninguna á myndinni um Helga Hóseasson í gær. Fín mynd. Manneskjuleg og datt aldrei í þá gryfju að sýna karlinn sem einhvern brandara og gera bara grín.
Stemningin var samt ekki ólík því þegar Siggi Sigurjóns leikur alvarlegt hlutverk í Þjóðleikhúsinu. Fyrstu 2-3 skiptin sem hann opnar munninn fer hálfur salurinn að flissa, þangað til fólk fattar að verkið sé dramatískt og litlar líkur á að Ragnar Reykás dúkki upp á sviðinu.
Þannig hló salurinn mikið í fyrstu, einkum af sérkennilegum uppátækjum og kúnstugum töktunum í Helga – en eftir því sem leið á sýninguna breyttist stemningin. Þá fór fólk að hlæja með mótmælandanum – ekki að honum. íhorfendurnir komust inn á sömu bylgjulengd og Helgi í húmornum og greinilegt að mörgum var brugðið við að uppgötva að á bak við mótmæli Helga sé heilsteypt hugmyndakerfi – þótt framsetningin sé vissulega æði sérstök.
Auðvitað ætti maður að reyna að sjá sem flestar íslenskar stutt- og heimildamyndir á meðan þær eru í bíó. Það tapast svo mikið við að sjá þær bara í sjónvarpinu heima í stofu…
Stjörnublaðamaðurinn (ég veit hvað honum finnst gaman að fá þennan titil) fjallar um Moggann og Helga. Það er vissulega kaldhæðnislegt að Morgunblaðið ræði nú við Helga eins og ekkert sé sjálfsagðara. Eitthvað segir mér þó að þau viðtöl megi snúast um skyrslettingar og áratugagamlar deilur við Þjóðkirkjuna – allir mega pönkast á henni, líka í Mogganum. Ef Helgi reyndi hins vegar að tjá sig um stríðsrekstur og morð á fátæku fólki í okkar nafni, þá muni Mogginn nú sem fyrr slökkva á upptökutækinu.
íhm.