Merkilegt hvað fjölmiðlaviðtöl og – umfjöllun kemur í kippum. Stundum vilja fjölmiðlar ekkert við mann tala svo vikum skiptir – sama hvað maður reynir að vekja athygli þeirra á málum með fréttatilkynningum og öðrum leiðum. Svo koma þeir tímar þegar maður þarf hreinlega að berja þá af sér. Síðustu dagar hafa verið þannig.
Á laugardag birtist langt og gott viðtal við mig í Fréttablaðinu, vegna landsráðstefnu Herstöðvaandstæðinga. Á mánudagsblaðinu var ég sömuleiðis látinn svara spurningu dagsins í Fréttablaðinu af sama tilefni.
Ég hélt erindi í Ráðhúsinu vegna Borgarvefsjár á sunnudag og Lísa Páls vildi fá mig í spjall í þættinum sínum vegna þessa. Komst ekki og varð að afþakka.
Á gær lenti ég í góðu tuttugu mínútna spjalli í þættinum hjá Hallgrími Thorsteinsson á Útvarpi Sögu í nýju húsakynnunum í Húsi verslunarinnar. Þar var rætt um herinn og NATO, en Hallgrímur hefur mjög gaman af því að ræða um það efni.
íðan var ég svo í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 að ræða um mótmæli og sögu þeirra hér á landi. Viðtalið átti að vera tæpar tíu mínútur en reyndist verða tæpt kortér, engu að síður var hellingur af efni eftir og viðtalinu lauk á að Fjalar tók loforð af mér að koma aftur í þáttinn, helst seinna í vikunni og taka upp þráðinn á ný.
Til viðbótar við þetta afþakkaði ég pent að fara í spjall við húsnæðisblað Fréttablaðsins, sem hafði greinilega eitthvað misskilið bloggfærslur mínar um klóakframkvæmdirnar á Mánagötunni og hélt að þetta væri fréttaefni.
Svona lendir þetta allt á sama tíma.