Nú eru þeir farnir að eitra fyrir mér. Ég get svo svarið það – vinnufélagar mínir eru farnir að eitra fyrir mér og það með því að hella ólyfjan í kaffið mitt.
Um þrjúleytið í gær byrjaði mér að líða illa. Fór heim á fimmta tímanum og rétt náði að skreiðast upp í rúm, þar sem ég fékk dúndrandi hausverk og kastaði svo upp eins og á akkorði. Það var ekki fyrr en eftir slatta af verkjalyfjum og kókglas að ég skreið saman upp úr kvöldmat. Þetta hafði sem sagt öll einkenni matareitrunar.
En hvernig veit ég að þetta var vinnufélögum mínum að kenna og hvernig veit ég að þetta var kaffið? Jú, það er einfalt. Ég át ekkert í gær og lét raunar ekkert ofan í mig annað en kaffi. Það þarf því ekki frekari sannana við.
Svona er líf millistjórnandans í hnotskurn – stöðugt undirlagt af svikum og undirferli samstarfsmanna. Þetta er heimur fyrir harðjaxla!
* * *
Hef enn ekki fengið botn í sjónvarpsmálin í Hveragerði. Nú síðast var mér þó ráðlagt að hringja í einhvern pizza-stað eða bar sem áður hét Kam-bar (sem er reyndar frábært nafn). Gott væri ef einhver gæti grafið upp núverandi nafn fyrir mig og helst slegið upp símanúmerinu líka – Palli?