Það rignir. Á írtúnsbrekkunni í morgun var umferðarhnútur vegna þess að heljarstóll pollur var kominn á eina akreinina. Umferðarhnútar eru góð leið til að skipta mannkyninu í tvo hópa.
Hópur 1:
Fólkið sem sér með góðum fyrirvara að vegurinn framundan sé fullur af bílum og að augljóslega hafi orðið óhapp. Þetta fólk áttar sig fljótt á því hvar á veginum hindrunin er og reynir að færa sig yfir á annan vegarhelming á sama hátt og allir hinir.
Hópur 2:
Fólkið sem sér mikinn umferðarhnút fyrir framan sig og hugsar – „skrítið að allir hinir bílarnir skuli troða sér á þessar tvær akreinar en skilja þá þriðju eftir tóma. Það er heppilegt fyrir mig, best að ég komi mér yfir á hana og noti tækifærið til að komast framar í röðina!“ – Þetta er sá þjóðfélagshópur sem telur rjúpnaveiði vera brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna.
* * *
Fór ásamt Val að horfa á fótbolta á Sportbarnum. Náðum þremur leikjum í einu höggi. Newcastle að vinna Basel; Dortmund að tapa heima og Liverpool ljónhepnu að hanga á jafntefli í Búkarest. Sá þó ekki Hearts vinna Bordeaux, sem eru frábær úrslit.
Á framhaldi af fólksfjölda/fótboltablogginu hér að neðan var mér bent á að Grechin, pólska liðið sem gerði jafntefli úti gegn Manchester City í gær, kemur frá 13.000 manna bæ. Akureyri hvað!
* * *
Kom heim af fótboltanum. Þar beið mín miði frá póstinum. Hann hafði bankað upp á 8 mínútum fyrr. Urg.
Vonandi er þetta Luton-búningurinnn minn! Annars óttast ég að þetta gætu verið gáfulegu mannfræðibækurnar sem Steinunn pantaði af Amazon. – Tekur Pósturinn ekki Vísa?
* * *
Guardian segir í dag frá niðurstöðum stóru rannsóknarinnar á áhrifum kannabis á MS-sjúklinga. Þessi rannsókn hefur verið boðuð lengi, en Lancet er loksins búið að birta greinina um málið. (Mér skilst að nokkur Evrópulönd hafi ætlað að bíða eftir þeirri grein áður en ákveðið yrði með lögmæti þessarar lyfjaþróunar.)
Niðurstöðurnar virðast óljósar. Sjúklingarnir sýna batamerki, en ekki hefur þó tekist að pinna niður í hverju batinn felist. Það er þó ljóst að tilraunir munu halda áfram af meira krafti á grundvelli þessa.
Nei, kæru lesendur. Ég er ekki að boða það að við Steinunn leggjumst í massívar hassreykingar og verðum útúrskökk hér eftir. Hún hefur verið blessunarlega laus við þau einkenni sem MS-sjúklingar sem nota kannabis eru helst að reyna að vinna gegn. Eftir stendur að ef vísindamönnum tekst að færa sannfærandi rök fyrir lækningamætti þessara efna, þá hljóta góðir menn að hefja baráttu fyrir að notkun þeirra verði heimiluð í lækningarskyni.
Um daginn voru umræður um málið í Kastljósi sem tóku á sig hálfskringilega mynd. Þar var gamall læknir sem brást reiður við í hvert sinn sem einhver svo mikið sem stakk upp á því að athuga þessar lækningaaðferðir. Að hans mati jafngiltu hugmyndir um að leyfa sjúklingum að reykja kannabis því að börn væru hvött til að sniffa. Til að sýna frjálslyndi sitt féllst hann þó á að dauðvona fólk mæti prufa þetta – kannski svona allra síðustu vikurnar…
Garðar Sverrisson og Margrét Frímannsdóttir voru bæði í viðtalinu. Garðar þorði nánast ekkert að segja, vitandi að um leið og hann gerði eitthvað sem túlka mætti sem frjálslynd viðhorf í þessu máli, myndu Varðar-kerlingar landsins reka upp vein: „Hann er ekki bara kommúnisti sem er vondur við Davíð – hann er líka dópdíler!“
Magga var þó slöppust. Hún bryddaði sjálf upp á þessu máli á þinginu og hefur greinilega kynnt sér það eitthvað – en koðnaði niður þegar kom að því að standa á sinni meiningu.
Á Skotlandi er það eitt af helstu baráttumálum Skoska sósíalistaflokksins að gefa hassið frjálst. Ekki sé ég umræðuna fara inn á þær brautir hérna heima í bráð. Nánast þeir einu sem ræða málið hér eru litlir frjálshyggjugaurar með stæla, sem guggna alltaf þegar á reynir.
O tempora…