Seríós er besti morgunmatur í heimi. Á tuttugu ár át ég seríós á hverjum morgni – en er illu heilli farinn að mæta æ oftar í vinnunna án þess að éta morgunmat. Reyni samt að eiga alltaf serjós-pakka í skápnum.
Nýjustu pakkarnir eru skreyttir með glefsum úr íþróttasögu Íslands. Þar dúkkar upp gömul og barnaleg villa sem er hreinlega sársaukafullt að lesa á prenti – vitandi að þar með prentast vitleysan inn í kollinn á nýjum kynslóðum.
Ferill Alberts Guðmundssonar er rakinn og þess getið að hann hafi verið kallaður „Hvíta perlan“ – og hver er þá sagður hafa verið „Svarta perlan“, jú – Péle!
Hvernig í ósköpunum stendur á því að menn prenta svona vitleysu? Dettur engum í hug að reikna pínulítið í huganum? Nú var Albert Guðmundsson mun fyrr á ferðinni en Péle. Sá síðarnefndi var á barnsaldri þegar Albert var upp á sitt besta. Varla hefur Albert þá verið kallaður „hvíta perlan“ til aðgreiningar frá Péle.
Hvaða skýring er þá á þessu? Var Péle kannski nefndur „svarta perlan“ til að greina hann frá Alberti? Nei, svo sannarlega ekki. Sú nafngift hafði ekkert með íslenskan pólitíkus að gera.
Albert var kallaður „hvíta perlan“ til aðgreiningar frá þeldökkum alsírskum knattspyrnumanni (að mig minnir) sem lék í Frakklandi á sama tíma og Albert. Engin utan Frakklands þekkti „svörtu perluna“ og hætt er við að nafngiftin „hvíta perlan“ hafi farið álíka lágt.
* * *
Iceland Express sendi mér tölvupóst áðan. IE reynir að vera kumpánalegt í bréfum sínum og er þess vegna með forrit sem setur fornafn móttakandans sjálfkrafa í ávarpið í bréfinu – voða krúttlegt, svipað og þegar Sjálfstæðisflokkurinn sendir út bréf sem virðast handárituð af Davíð Oddssyni.
Nema hvað, ekki tekst þetta betur til hjá Iceland Express en að ávarpið verður:
Kæri/kæra Stefán…
Hefði það verið nokkuð minna persónulegt að segja: Kæri viðtakandi?