Fór að skoða reglur Lánasjóðsins, sem er hugsanlega versta stofnun í heimi.
Þessi sjóður hefur gert það að sérstakri list að búa til asnalegar smáreglur sem einungis hafa það að markmiði að valda fólki vandræðum og fyrirhöfn en GETA EKKI haft raunverulegan sparnað í för með sér.
Tökum sem dæmi reglur sem snúa að öryrkjum:
Á reglum 2.3.3. segir: „Geti námsmaður vegna örorku sinnar að mati lækna ekki skilað lágmarksárangri skv. reglum sjóðsins er heimilt að veita honum 75% lán ef hann lýkur a.m.k. 50% árangri á hverju misseri. Ef hann lýkur innan við 50% árangri er heimilt að veita honum lán í hlutfalli við einingaskil.
Skilyrði fyrir undanþágu skv. þessari grein er að örorka viðkomandi sé metin a.m.k. 75%. Sækja þarf sérstaklega um fyrrnefnda undanþágu til stjórnar sjóðsins. Umsókn þarf að fylgja staðfest námsáætlun og læknisvottorð“.
Aha! Þetta er skemmtilegt. Hér er skemmtilegt að sjá hvað Lánasjóðurinn er í góðum tengslum við þjóðfélagið sem við hin lifum í. Það er sem sagt gert skilyrði um að örorka sé að minnsta kosti 75%. Þetta er áhugavert orðalag í ljósi þess að full örorka á Íslandi er einmitt 75%. Það er ekki hægt að vera meira en 75% öryrki. Skyldu menn hafa setið lengi á fundi og velt því fyrir sér hvort rétt væri að „fara með mörkin niður í 75% en ekki eitthvað hærra“???
Og svo eru skerðingarákvæðin alveg frábær. Einhverju sinni hefur komið upp á borðið hjá LíN mál öryrkja sem gat framvísað vottorði upp á að hann gæti ekki stundað 75% nám, eins og Lánasjóðurinn gerir að skilyrði, heldur eitthvað minna.
Á kjölfarið hefur verið blásið til fundar. – Hvað eigum við að gera við fatlafólið sem hefur uppáskrift læknis þess efnis að hann geti ekki stundað fullt nám? Jú, líklega verðum við að taka eitthvað tillit til hans. Nú veit ég! Hvað með að lækka kröfurnar um námsframvindu niður í 50%. OK, það er sanngjarnt – en mun þá ekki allt fyllast af einhverjum ræflum og aumingjum sem eru öryrkjar og dreymir um að fá námslán eins og þeir séu í fullu námi án þess að þurfa að hafa nógu mikið fyrir því? Jú fokk, það mun allt fyllast af slíku pakki. En við skulum koma með krók á móti bragði, við veitum afslátt á námsframvindukröfunum en skerðum aðeins lánið sjálft. That should teach´em, greedy bastards!
Ég held að til þess að geta búið til svona reglur, þurfi fólk að tileinka sér ákveðið hugarfar. Það er hugarfar sem gengur út frá því að manneskjan sé í eðli sínu löt og svikul. Til að tyfta þessa erfðasynd úr fólki þurfi svo reglur við hvert fótmál til að gera mönnum erfitt fyrir. Þessar reglur hafa engan praktískan tilgang annan en að sýna hver hafi valdið.
Hvernig væri að hugsa aðeins – þó ekki væri nema pínkupons? Hvaða hugsanlega tilgangi geta reglur eins og þessar skilað? Eigum við í alvörunni að trúa því að það sé vandamál fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna hversu margir stúdentar uppfylli öll eftirfarandi skilyrði:
i) að vera með fulla örorku
ii) að vera með skerta starfsorku og geta því bara stundað á bilinu 50-75% nám en ekki 75-100% nám
iii) að vera á námslánum
iv) að hafa í raun ekki þörf fyrir námslánin, heldur vera bara að lifa hátt á örorkubótunum og tékkanum frá LíN
v) að vera í þeirri aðstöðu að ef tékkinn frá LíN væri 3000 kalli lægri á mánuði myndu þeir hætta að dóla sér í námi og fara aftur að flétta tágakörfur
Annað hvort er þessi hópur fólks skuggalega stór – eða að Lánasjóðurinn er eina ferðina enn að reyna að sýna „völd“ sín. Hvers vegna í ósköpunum réð þetta fólk sitt til starfa á Lánasjóðnum? Af hverju gerðist það ekki gangaverðir í skólum eða safnverðir – þar sem það er þó skilgreint verkefni að öskra á börnin að hlaupa ekki á göngunum og snerta ekki málverkin?
Og nei – bara svo það sé á hreinu, þá er ég ekki að hella úr skálum reiði minnar vegna þess að þessar skerðingarreglur snerti okkur Steinunni. Hún er ekki á neinum námslánum, enda myndi hún hvort sem er ekki fá nein lán – alltof háar tekjur!
Það er nefnilega síðasta og besta grínið við þetta allt saman – að allar þessar flottu og fínu skerðingarreglur Lánasjóðsins þýða að þeir einu sem geta smogið í gegnum öll skilyrðin eru þeir sem hafa svo „háar“ örorkugreiðslur að þeir sprengja öll tekjumörk og fá hvort sem er engin lán!!!
Urr…