Ég er með kenningu um helgar. Hún gengur út á að afköst manna á laugardögum og sunnudögum séu fasti sem breytist ekki þrátt fyrir mismunandi ytri aðstæður. Með öðrum orðum – það skiptir ekki máli hvort maður lokar sig inni alla helgina, rýfur samskipti við umheiminn og lætur ekki glepjast af neinu – eða hvort maður liggur í ólyfjan og svallveislum heilu næturnar, útkoman verður sú sama.
Um þessa helgi ætlaði ég að semja spurningar og skirfa litla lýsingu á erindi sem ég lofaði að halda á alþjóðavæðingarráðstefnu við Háskólann í vor. Steinunn ætlaði að vinna að ritgerð. Til að vera vel upplögð fyrir vinnuna fórum við að sofa vel fyrir miðnætti bæði föstudags og laugardagskvöld. Ekkert sukk eða sjónvarpsgláp fram eftir nóttu.
Skilaði þetta einhverjum árangri? Nei, þrátt fyrir göfug markmið hrutum við til hádegis báða daga og skriftirnar hafa ekkert þokast áfram. Ergo: það skiptir ekki máli hvort maður hefur í mörgu að snúast um helgar, það mun engin áhrif hafa á afköstin.
Raunar var helgin ekki alveg án afreka. Ég náði að sjá tvo fótboltaleiki á laugardag. Skotland-Holland á Glaumbar og Spán-Noreg í Glæsibæ. Skotar eru langflottastir og líka gaman að sjá Wales í góðum séns að komast áfram. Miðvikudagskvöldið hefur verið tekið frá í áframhaldandi fótboltagláp.
Milli leikja var litið við í ársafmæli Helga Gnýs, hjá þeim Jóhönnu og Valdimar. Gnýrinn tekur mér alltaf með kostum og kynjum. Líklega einhver Pavlovs-skilyrðing – í hvert sinn sem hann sér krullur telur hann að það sé pabbi sinn.
Þá litlum við inn hjá Kristian Guttesen í útgáfupartý. Hann var að gefa út nýja ljóðabók og hélt þetta fína partý í húsi rithöfundasambandsins á Dyngjuvegi. Þetta hús átti Gunnar Gunnarsson skáld áður. Á Minjasafninu eru margar myndir og teikningar af húsinu, sem er klassískt dæmi um rafmagnshitun frá fyrri árum.
* * *
Luton vann Wrexham. Við höngum enn í baráttunni um sæti í umspili. QPR er illu heilli í efsta sæti deildarinnar og nafni minn Hagalín því að springa af monti.
Jamm.