Eldsnemma á þriðjudagsmorgun held ég til Olsó. Þar er norrænn fundur um alþjóðlega vopnasölu og baráttuna gegn henni. Fundurinn er tímasettur þannig að Skandinavarnir geti mætt með morgunfluginu og komið heim með kvöldfluginu. Það er óstuð fyrir mig, þar sem ég verð að gista í tvær nætur á fúlu gistiheimili, án þess að hafa félagskap af hinum fundargestunum. Hvað gerir maður í Osló einn síns liðs? Leita uppi fótboltabar? Tek með mér lesefni?
* * *
Luton sló Bradford út úr enska bikarnum í gær. 32-liða úrslitin bíða og í þau verður dregið í fyrramálið. Allir ensku stuðningsmennirnir óska sér útileiks gegn Chelsea, Newcastle, Arsenal, Manchester United eða Liverpool. Það gefur mikla peninga í kassann.
Nokkrir hrokagikkir vilja heimaleik gegn einu smáliðanna í veikri von um sæti í 16-liða úrslitunum. Verst er að dvergliðin eru gallagripir og ekki um marga létta leiki að ræða þegar svona langt er komið.
Sjálfur vil ég heimaleik gegn einu stórliðanna. Þar eru mun minni peningar í húfi, en góðar líkur á beinni útsendingu – jafnvel á Sýn. Það væri ekki amalegt að fá Luton-leik þar…
* * *
Hér er allt fullt af gestum á safninu, einmitt þegar ég hafði verið að vonast til að geta stolist frá aðeins fyrir lokun. TURK 182. (Hey, áður en þið byrjið að áfellast mig – þá sýnir reynslan að það kemur enginn á safnið síðustu 10-15 mín. fyrir lokun. Annað hvort koma gestirnir um kl. 16 eða alls ekki…)
Jamm.