Úff, ég er bara kominn í niðurtalningargírinn. Tveir dagar í fyrstu viðureignir. Mogginn fjallaði um keppnina í dag og á sunnudaginn. Það er líka eins gott, enda skilst mér að á föstudaginn, þegar fjórum keppnum af fjórtán í fyrstu umferð er útvarpað, verði einhver karókí-keppni á Stöð 2 sem búist er við að fjöldi fólks horfi á. – Jæja, GB verður þá bara sameiningartákn þeirra sem eru á móti karókí.
Annars spyr ég mig hvort keppnirnar séu ekki óþarflega samþjappaðar hjá útvarpinu. 3-4 keppnir á kvöldi er of mikið, áður fyrr voru bara 2 hvert kvöld. Eðlilega nenna spyrlar, dómarar og tæknimenn ekki að hanga yfir þessu öll kvöld vikunnar, en væri nokkuð að því að taka þetta upp í stærri hollum og nýta svo efnið yfir lengri tíma? Þannig er t.d. gert með spurningakeppni fjölmiðlanna.
* * *
Bíllinn minn er ennþá í steik. Fram hefur komið kenning um að hann hafi e.t.v. orðið bensínlaus og að þá sé ekki alltaf nóg að bæta á tankinn, heldur þurfi að vökva blöndunginn líka. Er þetta sennileg skýring?
* * *
Lenti í spjalli við Hallgrím Thorsteinsson á Útvarpi Sögu í gær. Verð stöðugt sannfærðari um að Útvarp Saga sé sniðugt konsept en útfærslan gölluð. Talmálsútvarp er málið, en það þarf fleiri umsjónarmenn. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk haldi dampi svona marga klukkutíma í viku. Um Ingva Hrafn vil ég sem fæst orð hafa.
* * *
Stjórnendur Hearts vilja flytja sig af Tynecastle yfir á Murrayfield. Það er áhugavert. Stuðningsmennirnir eru óðir, en ég held að þetta gæti hæglega orðið heillaspor.
* * *
Fiskarnir í Rafheimum eru nánast allir dauðir. Það er hörmulegt að horfa upp ástandið í búrinu. Sem betur fer koma engir gríslingar í dag, þannig að ég þarf ekki að breiða yfir blóðvöllinn.