Urr… af hverju lenda öll verkefni á sama tíma?
Ég er ennþá bíllaus og það gengur ekki neitt að koma Volvo-inum í gang. Það endar á að ég þarf að láta draga hann upp í Kópavog til viðgerðar. Hef engan tíma til þess!
Spurningakeppnin byrjar í kvöld, síðdegis er kynning innan Orkuveitunnar á minni deild í fyrirtækinu og vinnufélagarnir eru að fara á límingunum. Ég neitaði að búa til eitthvað power point-dæmi fyrir minn hluta kynningarinnar – enda finnst mér slíkir fyrirlestrar fúlir og leiðinlegir. Að mati sumra er það hins vegar jafn mikil hneisa að tala án þess að vera með power point og að leysa niður um sig og gera stykkin sín í miðri kynningu.
Ég fæ engin svör um það hvort blaðamannafundurinn sem átti að vera hér kl. 14 á morgun er enn á dagskrá. Það er þó forsenda þess að ég geti búið til skynsamlega vinnuáætlun fyrir morgundaginn, en þá vill einmitt hálf heimsbyggðin hafa mig með sér á fundi.
Ofan á þetta bætist að ég þarf að hringja í rafvirkja. Urgh!