Mikil gleði og fögnuður! Elsku bíllinn minn er aftur kominn á göturnar. Kristbjörn leit við á spurningakeppninni í gær, skutlaði mér heim og kom Bláa draumnum aftur í gang.
Aðferðin var einföld. Hann losaði blöndunginn, hellti á hann bensíni, gaf bílnum rafmagn og Volvoinn rauk í gang. Reyndar skal það viðurkennt að mér stóð ekki á sama þegar kveiknaði í vélinni – eða öllu heldur í bensíninu sem við helltum framhjá, en allt fór vel að lokum.
Ó, hvað bíllinn minn var stirður þegar hann loksins gat farið að keyra eftir nærri tveggja vikna kyrrstöðu. Hann skal aldrei, aldrei, aldrei aftur þurfa að verða bensínlaus eða standa óhreyfður í lengri tíma í skítakulda. – Eftir stendur að Kristbjörn er snillingur og öðlingur. Segið svo að það sé ekki sniðugt að barma sér á blogginu sínu og betla aðstoð!
* * *
Keppnirnar tvær fóru vel fram. Held að þetta hafi bara verið gott útvarpsefni.
Garðabær lagði írmýlinga í fyrri keppninni. Það kjaftaði hver tuska af írmýlingum, sem augljóslega lúslesa bloggið mitt. Garðbæingar voru hins vegar sterkari í hraðaspurningum og þar skildi á milli. Það er sá gamli jaxl Stefán Bogi sem þjálfar Garðabæjarliðið. Hann var einmitt aðalmaðurinn í því þegar Menntaskólinn á Egilsstöðum komst í undanúrslit Gettu betur og Morfís sama árið fyrir margt löngu. Sveinn Birkir, félagi minn á Kaninkunni var einmitt liðstjóri í því ræðuliði.
Kvennaskólinn og ísafjörður áttust svo við í æsispennandi keppni þar sem munurinn varð sjaldnast nema eitt stig. Kvennó var með þrjár stelpur í sínu liði. Þær voru fínar og voru t.d. með bókmenntirnar alveg á hreinu. Á lokaspurningunni hefðu þær getað tryggt sér sigurinn en slógu saman Helga Björns og Pálma Gunnarssyni og ísfirðingar unnu með einu stigi. – ísfirðingarnir stóðu sig vel að mér fannst. Það er svo sannarlega ekki á hverju ári sem sá skóli kemst í aðra umferð.
Á kvöld eru fjórar viðureignir og allar áhugaverðar:
* MR og Suðurland eigast við í fyrstu viðureign. – Mér skilst að MR sé á sama tíma að keppa í Morfís, þannig að ekki býst ég við mörgum áhrfendum þaðan. Spurning hvort margir komi í bæinn frá Selfossi.
* Egilsstaðir og MA takast á í keppni tvö. Akureyringar eru að jafnaði í hópi bestu liða og komast nánast alltaf í sjónvarpið. Egilsstaðir hafa oft verið góðir.
* Húsavík og FB eiga að mætast í þriðju viðureign kvöldsins. Það hlýtur þó að fara eftir veðri, því ef Húsvíkingar komast ekki til Akureyrar verður keppninni augljóslega frestað. Fyrr á árum voru Breiðhyltingar nánast áskrifendur að sæti í sjónvarpinu en hafa ekki staðið sig eins vel upp á síðkastið.
* Nýi framhaldsskólinn, Hraðbraut, mætir VMA í síðustu keppni kvöldsins. Veit ekkert um þennan Hraðbrautarskóla – skilst að þar séu ekki nema 50 nemendur og margir þeirra eldri en svo að geta keppt í GB. VMA hefur ekki farið langt í keppninni í allmörg ár.
– Þá er bara að vona að þjóðin hlusti á Rás 2 í kvöld. Ekki dugir að fylgjast með karókí-keppninni, þar sem einhver sjóari er víst búinn að vinna fyrirfram.
Jamm.