Á gær keyptu besti bloggarinn og konan hans sér flugmiða til Glasgow. Farið verður út 28. maí og snúið aftur 13. júní. Fyrir þetta greiðast 40.000 krónur til Flugleiða – ekki slæmt.
Og hvað á að gera í Skotlandi? Jú, fyrri vikunni verður varið á smáeyjunum Islay og Jura. Þar er á ári hverju haldin Viský og þjóðlagahátíð, enda bestu brugghús í heimi samankomin á þessari agnarsmáu eyju Islay. – Ferðafélagarnir verða nokkrir aðrir Íslendingar og er nú þegar búið að leigja sumarhús í Port Ellen til að gista í. – Fögnuður mikill.
Að hátíðinni lokinni verður farið aftur á fastalandið. Vitaskuld verður Edinborg sótt heim. Þar þarf ég að heimsækja marga staði og eitthvað af fólki. Skyldu vinir mínir á The Royal Oak hafa breytt einhverju? Nei, varla…
Hóhóhó… ég gleðst eins og barn við það eitt að hugsa um þetta!
* * *
Luton gerði bara jafntefli á heimavelli gegn Stockport eftir að Forbes lét reka sig út af eftir 35 mínútur. Hefðum með sigri komist í góða stöðu en erum í níunda sæti. Um næstu helgi drögumst við lengra aftur úr, enda eigum við þá bikarleikinn gegn Tranmere. Um þann leik verður væntanlega bloggað rækilega síðar í vikunni.
Jamm.