Jæja, þriðja keppniskvöldinu af fjórum lokið í fyrstu umferð GB. Sem fyrr rúllaði keppnin ágætlega, keppendur og áhorfendur báru sig a.m.k. vel.
Hafnarfjarðarskólarnir – Iðnskólinn og Flensborg mættust í fyrstu keppninni. Hallgrímur Indriðason var vitaskuld mættur með myndavélina á lofti, enda fjallar bæjarblaðið í Firðinum að sjálfsögðu um svona grannaslag. Ef Hallgrímur les þetta, þá mætti hann alveg koma með eintak af blaðinu í fótboltann á sunnudag. Það væri gaman að lesa viðtalið við liðin tvö.
Flensborgarar fóru með sigur af hólmi. Eru með ágætis lið og ekki spillti fyrir að einn keppandinn sé Luton-maður. Hann mætti í treyju – nánar tiltekið í svart- og appelsínugulröndótta búningnum sem notaður var ýmist sem varabúningur og þriðji búningur fyrir nokkrum misserum. Stór plús í kladdann fyrir þetta.
Sauðárkrókur og Vesturland (sem Sonja verður foxill ef ég kalla Akranes) kepptu á eftir Hafnfirðingum. Þar kom í ljós það sem grunaði, að menntskælingar þekkja ekki blaðamenn. Ég spurði um fréttastjóra DV (Kristinn Hrafnsson og Kristján Guy Burgess) og aðstoðarritstjóra Moggans (Karl Blöndal og Ólaf Stephensen).
Ég varð í sjálfu sér ekki mjög hissa þegar ekkert rétt svar kom, en það kom mér samt nokkuð á óvart að meira að segja þegar Logi var búinn að segja rétta svarið virtust keppendurnir aldrei hafa heyrt á þá minnst. Ritstjórnarstörf á dagblöðum eru greinilega ekki leiðin til frægðar og frama.
Vestlendingar unnu og voru ofsakátir. Rak augun í blogg eins liðsmannsins. (Svona er maður alltaf að njósna um börnin…) – Þessi úrslit ættu í það minnsta að kæta Ólaf frænda minn, sem er áfangastjóri í FVA. Fyrir mörgum, mörgum árum fékk hann mig meira að segja til að mæta upp á Skaga og halda fyrirlestur yfir spurningaliði skólans um það hvernig best væri að æfa fyrir GB. Ekki skilaði það miklum sigrum ef ég man rétt.
Nágrannar FVA af Vesturlandinu, Bændaskólinn á Hvanneyri keppti við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hvanneyringar eru í erfiðri stöðu þar sem nú hefur verið tekið fyrir að nemendur með stúdentspróf frá öðrum skólum taki þátt í keppninni. Reyndar mátti engu muna að Hvanneyri hefði betur, enda henti liðið frá sér sigrinum í næstsíðustu spurningu. Suðurnesjamenn eru þar með komnir í aðra umferð og hafa þá færi á að æfa sig næstu viku til tíu daga.
Menntaskólinn við Sund keppti við Norðfjörð í síðustu keppni kvöldsins. Norðfirðingar voru ágætir og stóðu rækilega í MS-ingum. Um tíma voru þjálfarar MS farnir að rífa hár sitt og skegg. (Það var gaman að sjá MS-inga fylgja fordæmi MR-inga á þann hátt að mæta í stórum hópum þjálfara/liðstjóra/velunnara og ganga í salinn eins og þeir væri að pósa fyrir Reservoir Dogs-plakatið…)
Eftir keppnina voru MS-ingar ekki mjög kátir, þrátt fyrir sigurinn. Kannast við tilfinninguna. Þegar maður var að garfast í þessari keppni með MR í gamla daga, þá kom það oft fyrir að MR-ingar voru eins og þrumuský eftir sigurkeppnir á meðan andstæðingarnir voru hinir kátustu. Svona getur þetta nú allt verið öfugsnúið.
* * *
Sýndi íbúðina á Hringbrautinni í gær. Á ekki von á að mikið komi út úr þeirri skoðun, en þessi manneskja var þó mun jákvæðari og hressari en sá sem síðast skoðaði hjá mér. Hann hafði allt á hornum sér og reyndi mikið að tala niður verðið á kofanum. Síðar kom í ljós að hann ætlaði að skila inn mjög döpru tilboði í íbúðina. Fasteignasalinn sagði honum að sleppa því. Með hækkandi sól ætti líka kaupgleði fólks að aukast.
* * *
Mikið var gott að heyra úrslitin í kosningunum í Færeyjum. Það hefði verið hörmulegt ef sambandssinnarnir hefðu unnið á eins og búið var að hóta.
* * *
Byrjaði á Highland Park-18 ára flöskunni úr Noregsferðinni í gær. Það er gott viský. Lífið er of stutt fyrir vont viský.
Jamm.