Logo

Besti og frægasti bloggarinn er ekki mikið tölvuséní­. Þessar upplýsingar kunna að koma mörgum á óvart og eru þeim mun undarlegri í­ ljósi menntunar hans. Sú var nefnilega tí­ðin að besti bloggarinn lærði á Logo.

Um 1984-5 var fólk farið að komast inn á þá skoðun að innan tí­ðar yrðu tölvur mikilvægur þáttur í­ skólastarfi. Menntaskólarnir og jafnvel gagnræðaskólarnir settu tölvur á óskalistann. Meira að segja voru til þeir barnaskólakennarar sem töldu skynsamlegt að kenna grí­slingum á þessi tæki – því­ fyrr sem byrjað væri, því­ snjallari yrðu börnin í­ að meðhöndla þessi undratól.

Hugmyndin um að setja tölvur í­ hendur smákrakka var gjörsamlega galin og talin efsta stig sóunar. Rí­kið sá á þessum árum um rekstur allra skóla og það var ekki viðlit að það færi að reiða fram svimandi upphæðum til að fylla allar skólastofur af tölvum.

Um þessar mundir voru foreldrafélög ví­ða öflug í­ barnaskólum. Eins og foreldrafélaga er háttur áttu þau það til að safna peningum, með kökusölu, bösurum og klósettpappí­rs- & rækjuharki. Hagnaðurinn fór ekki í­ að borga undir barnakórana í­ dýrar utanlandsferðir, heldur til að kaupa hluti fyrir skólann. Myndvarpa, bækur á bókasafnið – og já, tölvur.

Foreldrafélagið í­ Melaskóla seldi snúða og kleinur, labbaði í­ fyrirtæki og betlaði peninga og að lokum tókst að blæða í­ nokkrar Apple II tölvur. Það var nýjast og flottast – raunar fáránlega flott fyrir barnaskóla.

Tölvunum var komið fyrir í­ hornherbergi á efstu hæð, þar sem tónlistarkennari skólans hafði áður kennt stúlkum á þverflautur og strákum á sneriltrommur.

Og í­ tölvuverinu fengum við grí­sirnir að læra á hið stórmerka forrit „Logo“, sem okkur var sagt að mynda gefa skólagöngu okkar þetta cutting edge sem tryggja myndi okkur úrvalsstörf eða í­ það minnsta gætum við fengið vinnu í­ banka.

Logo gekk í­ skemmstu máli út á að teikna hringi og draga lí­nur. Þeir sem voru mjög klókir gátu jafnvel fengið út úr þessu skiljanlegar myndir, að svo miklu leyti sem ljósgrænar lí­nur á dökkgrænum skjá geta orðið skiljanlegar.

Það sem ekki þótti verjandi að stofna sérstaka námsgrein undir tölvukennsluna og úthluta henni tí­mum á stundaskrá, var gripið til þess ráðs að skilgreina tölvutengd verkefni innan annarra námsgreina. Á mí­nu tilviki innan landafræðinnar.

Fyrir vikið bisuðum ég og félagi minn við að teikna í­ Logo kort með nákvæmum útlí­num Búlgarí­u, sem blikkaði svo – ljósgrænt/dökkgrænt/ljósgrænt/dökkgrænt, undir þessu birtust svo staðreyndarmolar um þetta heillandi land, s.s. um flatarmál, í­búafjölda og atvinnuvegi. Samkvæmt heimildum mí­num á þessum tí­ma var framleiðsla á rósaolí­u einhver veigamesta greinin í­ hagkerfi Búlgarí­u. Eitthvað segir mér í­ dag að mikilvægi hennar hafi verið ýkt upp til að geta birt flottar myndir að skví­sum að tí­na rósir í­ túristabæklingunum.

Núna gæti ég ekki teiknað mynd í­ Logo þó ég ætti lí­fið að leysa, en man hins vegar nákvæmlega að það þarf eitt tonn af rósablöðum til að framleiða kí­ló af rósaolí­u. Það er ástæðan fyrir því­ að ég er ekki vellauðugt tölvugúrú í­ dag.