Gleði og fögnuður!
Við Palli höfum nú fengið í hendur nýja barmmerkjapressu. Fyrir áttum við 1-tommu pressu, sem gerir litlu nælurnar sem sjá má fólk með um allan bæ & 1 1/2-tommu pressu, en við höfum aldrei verið ánægðir með hana. Annars vegar vegna þess að hún er leiðinleg í meðförum og lítillega biluð – en einkum þó vegna þess að 1 1/2-tomma er of stórt. Fólk gengur ekki með svo stór merki til lengdar og það er lítið varið í að gera merki sem ekki sjást.
Okkur hefur hins vegar lengi langað til að eiga 1 1/4-tommu pressu, en klassísku herstöðvaandstæðingamerkin eru af þeirri stærð. Stærri merki ganga fæstir með. Nýja pressan er einmitt af þessari stærð.
Eins og við Palli höfum ekki verið mestu barmmerkjatöffararnir fyrir, (ég er nokkuð viss um að barmmerkjapressan var veigamikill þáttur í að ég nældi í Steinunni), þá verðum við núna langsvalastir. – Það erum við og kvennafangelsið í Kópavogi sem framleitt getum merki. Kvennafangelsið sér um framleiðsluna fyrir Margt smátt. Fangarnir og eigendur Margs smás (er það ekki fallbeygt svona?) þurfa þó ekki að hafa miklar áhyggjur af samkeppninni, því við Palli framleiðum bara fyrir vini og kunningja. Anarkistar, feministar, náttúruverndarsinnar, vinstri róttæklingar – og jú, stöku smáverkefni ef við erum beðnir ákaflega vel.
Þegar við verðum búnir að safna upp í restina af kostnaðinum við nýju pressuna, hljóta ný viðfangsefni að taka við. Á óskalistanum er t.d. bolapressa, svo við getum framleitt okkar eigin boli. Netútvarpsstöð væri líka skemmtileg.
* * *
Las á bloggsíðu Einars (sem ég skoða reglulega) að hann er annar Versló-drengjanna sem tóku viðtal við mig fyrir Verzlunarskólablað fyrir mörgum árum. Alveg var ég búinn að steingleyma því viðtali og mundi ekkert eftir blaðamönnunum. Minnir samt að ég hafi ekkert verið sérstaklega vel fyrir kallaður.
* * *
Eftir sáralítil afköst alla síðustu viku, hafa iðnaðarmennirnir tekið á sig rögg í framkvæmdunum á baðinu á Mánagötu. Reyndar föttuðu þeir alltof seint að þá vantaði stút á salernisskálina (sem þeir hefðu raunar átt að geta sagt sér strax viku fyrr) og það tefur vinnuna aðeins. Hins vegar verður nú alvöru múrverk á baðinu í staðinn fyrir fúskið sem þar var fyrir. Það var eins og búast mátti við – um leið og byrjað er að vinna í svona gömlum húsum koma allskonar leyndir gallar í ljós.
* * *
Svekkjandi að Guðjón Þórðarson hafi ekki tekið við Hibernian. Var farinn að vonast til að sú yrði raunin, enda hefði Sýn þá örugglega sýn Edinborgarslag Hearts og Hibs á næsta ári. Eða úbbs – það hefði kannski komið í hlut Skjás 1…