Til að viðhalda ímynd minni sem fótboltanörd, get ég ekki látið hjá líða að blogga um úrslit gærdagsins í Eyjaálfuforkeppni HM.
Samóa vann Amerísku-Samóa 4:0 í viðureign sem væntanlega getur gert tilkall til að vera einn slakasti landsleikur í stórmóti fyrr og síðar. Amerísku Samóa geta nefnilega EKKERT í fótbolta og eiga heimsmet í stærsta tapi ef ég man rétt.
Vanuatu kom mjög á óvart og gerði jafntefli á útivelli gegn Papúa-Nýju Gíneu. Salomóns-eyjar sigruðu Tonga 6:0. Spurning hvað fituhjassanum, konungi Tonga, finnst um það. Þá sigraði Tahiti Cook-eyjar með tveimur mörkum gegn engu. Á miðvikudag er önnur umferð í þessari keppni og svo aftur á laugardag.
Það sorglegasta við forkeppni Eyjaálfu er að hún skiptir í raun engu máli. Sigurliðin komast að sönnu áfram, en verða þá kjöldregin af íströlum og Nýsjálendingum. Það er minni en engin von til þess að þessi lið tapi svo mikið sem stigi gegn smáliðunum. Engu að síður fylgist maður spenntur með framvindu mála…
Svo byrjar Afríkukeppnin 5. júní. Veit einhver hvernig málaferli FIFA gegn Kamerún standa? (Þar sem FIFA vill draga sex stig af Kamerún – og þar með de facto fella liðið úr keppni – fyrir að spila í samfellu en ekki tvískiptum búningi.) Fávitinn Sepp Blatter sem vildi að kvennafótboltinn færi fram í meira eggjandi búningum eipaði yfir því að Kamerúnar léku svo „ósiðsamlega“ klæddir. Ekki hef ég stutt Kamerún sérstaklega í Afríkuboltanum en þetta er svo sannarlega TURK182.