Nei Björn, ég ætla ekki að monta mig yfir sigri Framara í gær. En óskaplega er það mikill munur að vinna stundum leiki…
* * *
Um daginn bloggaði ég um skosku deildina – hvort Partick Thistle myndi halda sæti sínu í úrvalsdeildinni þrátt fyrir að lenda í botnsætinu. Spurningin var hvort Clyde myndi tryggja sér efsta sætið í fyrstu deild (og þar með færast upp í þá efstu) eða hvort Inverness Caledonian Thistle hefði betur og yrði dæmt til að sitja eftir á grundvelli of lítils heimavallar.
Clyde klúðraði þessu í lokaumferðinni og tapaði heima gegn keppinautunum – og þá er hin fyrirsjáanlega staða komin upp. Um þetta er fjallað í The Herald í dag.
Á stuttu máli tekur heimavöllur Inverness rétt rúmlega 6.000 manns en lágmarkskröfur skosku úrvalsdeildarinnar er 10.000. Einn kostur í stöðunni er að 1.deildarmeistararnir fái að færast upp og leiki heimaleiki sína í Aberdeen. Það krefðist þess að stuðningsmennirnir ferðuðust 110 mílur á „heimaleikina“, auk þess sem vallarleigan myndi sliga félagið og koma endanlega í veg fyrir að það gæti plumað sig í deild hinna bestu.
Sigurganga Inverness er hálfgert Öskubuskuævintýri. Sambærilegt við það ef Bolungarvík, Norðfjörður eða Húsavík kæmist í efstu deild hér á klakanum – þess vegna þykir mörgum það fjári súrt að þeir verði sviptir sigrinum á tækniástæðum.
Þetta er harður heimur…