Skaust í bankann í morgun. Var að skila af mér greiðslumatsgögnum, enda ætlum við Steinunn loksins að drífa okkur í að kaupa Mánagötuna af tengdapabba. Á bankanum hófst fyrirsjáanlegt stapp.
Þjónustufulltrúi: Hérna eru ekki þrír launaseðlar. Það á að skila þremur launaseðlum og hér eru bara tveir.
Stefán: Já, ég veit það. En á launaseðlunum kemur fram hverjar greiðslurnar eru frá áramótum.
Þjónustufulltrúi: En hjá konunni þinni, þar eru heldur ekki þrír seðlar?
Stefán: Nei, en það er sama sagan þar, það eru birtar heildargreiðslur frá áramótum. Þetta er fastar greiðslur og breytast ekki milli mánaða. Heildarsummurnar eru sex sinnum hærri en mánaðargreiðslan þarna.
Þjónustufulltrúi: Já en það á að skila þremur seðlum… (þögn) Jæja, ég get sent þetta svona, sjáum til hvort þeir taka við þessu… Þetta er þá á þína ábyrgð.
– Alveg er ég viss um að íbúðalánasjóður á eftir að hnjóta um þetta sama og neita að gera greiðslumat fyrr en hann fær þriðja launaseðilinn í hendur. Þar mun ekki skipta máli þótt gögnin sem ég sendi sjóðsins séu BETRI og íTARLEGRI en um er beðið, því augljóslega er betra við útreikning á greiðslumati að hafa yfirlit yfir tekjur síðustu sex mánaða en þriggja mánaða.
Auðvitað er klausan um þrjá launaseðla sett inn til að koma í veg fyrir að menn vinni eins og skepnur í yfirtíð í 1-2 mánuði og skili inn einum óvenjuháum launaseðli til að svindla á greiðslumatinu. Hún er hins vegar EKKI inni vegna þess að útreikningar stofnunarinnar standi og falli með því að geta pinnað niður maí-greiðsluna til mín frá Orkuveitunni.
Nú skal það reyndar viðurkennt að út frá gögnunum sem ég skilaði inn er sá fræðilegi möguleiki fyrir hendi að ég sé lausráðinn starfsmaður Orkuveitu Reykjavíkur sem vinni bara hjá fyrirtækinu þrjá mánuði á ári: í maí, júní og í janúar og hafi einmitt fengið skrilljónir greiddar í byrjun árs, en sé atvinnulaus þess á milli…
Á sama hátt væri ekki loku fyrir það skotið að Steinunn hafi skyndilega orðið sér út um örorku í júní og fengið háa eingreiðslu frá Tryggingastofnun í byrjun árs án nokkurs tilefnis – og muni aldrei aftur fá þaðan krónu! Vissulega gæti það verið raunin. En þá ætti það að vera huggun harmi gegn fyrir íbúðalánasjóð að hafa fengið skattframtal SíðUSTU ÞRIGGJA íRA til að bera saman við.
Jæja – þá er pirringsþörf dagsins fullnægt. Held ég sleppi bara að bölsótast yfir hinum 2-3 heimskulegu atriðunum sem mig langar að tuða yfir varðandi þetta greiðslumat…
* * *
Grikkir unnu eins og ég hafði spáð. Tek við hamingjuóskum og athugasemdum um snilli mína og spádómsgáfu í athugasemdakerfinu hér fyrir neðan.