Guðni Guðmundsson er látinn.
Guðni kenndi mér ensku 1994-5, sem var lokaárið hans sem rektor MR. Ég hafði jafnframt kynni af honum sem skólastjórnar- og skólanefndarfulltrúi, auk þess sem ég leit stundum í heimsókn á skrifstofuna hans til að spjalla um daginn og veginn, einkum þó pólitík.
Með því að kynnast Guðna rektor á þessum ólíku sviðum, sá ég afar ólíkar hliðar á honum – bæði styrkleika og veikleika.
Sá Guðni sem ég kynntist var gamall maður á friðarstóli. Sögurnar sem gengu af honum fyrr á árum, um gálgahúmor og stólpakjaft, voru ekki í nokkru samræmi við þann mann sem kenndi okkur fornmálanemunum ensku. Stundum setti hann sig í gírinn og slengdi fram einhverju sem átti að vera ögrandi eða neðanbeltis – en það var frekar til að standa undir orðsporinu en nokkuð annað.
Karlinn sagði sögur. Einkum frá námsárum sínum í Edinborg. Á tímum gátum við Sigfús fengið hann til að tala um enska boltann – og þá einkum Newcastle – í stað þess að fara yfir námsefnið. Honum fannst það líka ólíkt skemmtilegra en að snupra lata nemendur fyrir að hafa ekki undirbúið sig fyrir tíma.
Tvö atvik eru sérstaklega minnisstæð úr kennslu vetrarins. Eitt sinn byrjaði Guðni tíma á að taka upp veskið, draga upp úr því þúsundkall og segja: „Stefán, farðu og kauptu fyrir mig tóbaksklút.“ Ég hljóp af stað, greip í tómt í tóbaksbúðinni Björk, sem og annarri verslun og fékk loks klútræksni í Agli Jacobsen. Kom aftur undir lok tímans, til þess eins að fá hláturroku frá kallinum þegar hann sá klútinn (sem sannarlega var ljótur). Næstu skiptin sem hann tók upp klútinn hristi hann yfirleitt höfuðið og lét eitthvað fljóta með um smekkvísi mína eða skort á henni þegar kæmi að klútakaupum.
Hitt atvikið átti sér stað á sjötugsafmælisdaginn hans. Guðni hafði harðbannað veisluhöld og tiktúrur í kringum afmælið, sem okkur nemendunum þótti súrt í broti. Höfðum hálft í hvoru vonast til að fá frí í tilefni afmælisins. Rétt áður en kennslustund hófst skipað einhver bekkjarfélaginn mér að flytja ræðu, sem var auðsótt mál. Ég sagði eitthvað um eftirlætisrektorinn okkar og spurði hvort hann stæði enn við þau ummæli sem hann hafði látið falla í sjónvarpsfréttum þremur árum fyrr – að 1975-árgangurinn væri sá vitlausasti í sögu skólakerfisins.
Eftir ræðuna og ferfalt húrra fyrir afmælisbarninu kom í ljós að karlinn var orðinn meir. Hann lagði ekki einu sinni í að segja mikið, heldur var fljótur að fá einhvern til að byrja að lesa. Síðar frétti ég eftir öðrum leiðum hversu glaður hann hefði orðið með bekkinn sinn þennan dag. – Guðni okkar átti ekkert skylt við þjóðsögurnar um Guðna kjaft. Og ég kunni líka miklu betur við manninn en goðsögnina.
Á skólastjórn kom líka í ljós hversu milt yfirvald Guðni var. Á borði skólastjórnar voru fyrst og fremst mál sem tengdust agabrotum, skrópum og undanþágubeiðnum frá reglum um námsframvindu. Þar reyndi ég karlinn aldrei að öðru en að telja fallistum og skrópalingum allt það til tekna sem mögulegt var. Sá rektor sem ég kynntist veturna 1992-4 trúði ekki á refsingar. Og ef skúrkarnir reyndust hafa húmor, þá gátu þeir komist upp með ýmislegt!
Sem skólanefndarfulltrúi sá ég aðra hlið á Guðna rektor. Skólanefndina skipuðu fulltrúar Reykjavíkur, ríkisins, kennarar og einn nemandi (ég). Guðna var meinilla við nefndina, sem hann taldi ekkert erindi eiga inn í skólann. Vissulega komu fulltrúarnir úr ýmsum áttum og þekktu sumir lítið til skólastarfs og það var kannski margt til í þeirri afstöðu Guðna að Reykjavíkurborg hefði aldrei lagt neitt til skólans og ætti því ekkert að hafa um hann að segja – en hvort sú skoðun var rétt eða röng þá var skólanefndin þarna engu að síður.
Ég er sannfærður um að stífni Guðna rektors í samskiptum við ráðuneyti, skólanefnd og borgina stóð vexti og uppbyggingu MR fyrir þrifum á tímabili. Á þessum samskiptum skorti hann ákveðið pólitískt nef. Þannig var það bara. Þessi veikleiki hans hafði að mínu mati áhrif á það hvernig valinu á eftirmanni hans lyktaði, en það er svo sem ekkert leyndarmál hvern Guðni vildi sjá í sinn stað.
Hvað persónulegu samskiptin við Guðna rektor áhrærir, þá þykir mér vænst um þau. Karlinn var eðalkrati af gamla skólanum og hafði lítið álit á kommum. Sjálfur var ég samfylkingarsinnaður allaballi og gat rætt um það af ákefð hversu góð sameining jafnaðarmanna yrði. Ég var fullviss um að sú sameining myndi eiga sér stað fyrir kosningarnar 1998 eða 1999. Um þetta fannst Guðna skemmtilegt að karpa við mig.
Hann leyfði mér að láta dæluna ganga, en skaut sjálfur inn athugasemdum og gerði stólpagrín af þessu brölti, enda fullviss um að íslenskir kratar og kommar gætu ekki þrifist í einum flokki. Óskaplega fannst mér það gamaldags og kjánaleg skoðun þá…
Nokkrum árum eftir útskriftina kom það til tals hjá okkur Óla Jó og nafna mínum Jónssyni að hafa samband við Guðna – hitta hann til að spjalla. Því var endalaust skotið á frest, auk þess sem hann var víst með annan fótinn suður á Flórída eftir því sem sagt var. Aldrei varð neitt úr heimsókninni. Alltaf skal manni takast að glutra svona hugmyndum niður.
Bestu kveðjur til fjölskyldu Guðna Guðmundssonar.