Bráðabaninn var stuttur. Fjallakaffi fékk þrjú atkvæði og telst hafa sigrað 21:18.
En þá er komið að næstu viðureignum í CHOPIN 2004.
Þéttbýlisflokkur:
* Söluturninn Hallinn gegn Skalla í Hraunbæ.
Hér takast á ólíkar hefðir í sjoppurekstri. Hallinn og Skallinn eru fulltrúar mismunandi gilda, þar sem sá fyrrnefndi hefur verið rekinn frá því að völvan var ung og sæt og selur geisladiska með hljómsveitinni Súkkat ef eftir er leitað.
Skalli er dæmigerð afurð níunda áratugarins og var einhver svalasta sjoppan áður en hún komst úr tísku. Sú var tíðin að Skalli rak sjoppu í Lækjargötu, en eftir að sókn Reykjavíkur til fjalla hófst fyrir alvöru, hafa umsvifin að mestu verið bundin við írbæinn.
* Hamraborg á ísafirði gegn Bogga Bar í Keflavík.
Um þessar sjoppur veit ég lítið annað en það sem aðrir hafa staðhæft. Fullyrt er að heill kafli í Lonely Planet fjalli um Bogga Bar og einstæða hamborgara sem þar munu vera gerðir. Fulltrúi ísfirðinga í lesendahópnum mærir poppkornið í Hamraborginni. – Ef menn vilja reka frekari áróður fyrir þessum sjoppum er velkomið að gera það í athugasemdakerfinu.
Þjóðvegaflokkur:
* Brú gegn Staðarskála.
Keppni umferðarinnar ef ekki þúsaldarinnar! Íslenska þjóðin er klofin í tvær fylkingar. Sumir eru Brúarstubbar, aðrir Staðarskálkar. Sjálfur hafði ég aldrei á ævinni stoppað í Brú fyrr en við Steinunn fórum að leggjast saman í ferðalög. Hennar fólk er Brúar-trúar. Eftir á að hyggja er ótrúlegt að þetta samband hafi gengið upp.
* Söluskáli Kaupfélags Héraðsbúa á Egilstöðum gegn Söluskála Kaupfélags Skagfirðinga í Varmahlíð.
Sjoppurnar með löngu nöfnin keppa. Þetta verður eflaust spennandi.
Atkvæði berist með sama hætti og venjulega. Úrslit tilkynnt á föstudag.