Finnst engum öðrum en mér fyndið að gaurinn sem samdi skýrsluna um íraks-klúður Blair heiti Butler og sé lávarður? Ætli hann sé sjálfur með butler á herragarðinum sínum? Hvernig ætli sá maður titli sig – Butler of Lord Butler?
Menn sem heita Butler eiga að afsala sér lávarðartign, á sama hátt og menn sem heita Páll eiga ekki að sækja um vinnu sem bréfberar…
Annars er það skringilegt fyrirbæri þessar lávarða-rannsóknarnefndir í Bretlandi. Þessar nefndir rannsaka mál og semja um þær skýrslur. En í stað þess að láta sér nægja að leggja fram efnisatriði málsins fyrir stjórnmálamenn, fjölmiðla og almenning að dæma um – þá fella nefndarformennirnir gildisdóma. Þessir úrskurðir eru svo taldir mikill sigur fyrir mennina sem skipuðu nefndina fyrir það fyrsta!
Hugsum okkur að þetta væri gert hérna heima. Ríkisstjórnin myndi skipa Einar Benediktsson, Sveinbjörn Dagfinnsson, Birgi Ísleif Gunnarsson eða Karl Steinar Guðnason (hátt settan embættismann úr stjórnkerfinu) til að leggja mat á það hvort ríkisstjórnin hafi farið offari í fjölmiðlafrumvarpsmálinu. Sá myndi svo skila skýrslu sem segði að hér væri margt í mörgu, en stjórnin hefði brugðist rétt við. Myndu fjölmiðlar og stjórnarandstaða þá bara yppta öxlum og segja: „Jæja, við verðum víst að kyngja þessu…“ – Varla.
* * *
Erum við að fá nýja nágranna? Kjallaraíbúðin var auglýst til sölu á Mogga-fasteignavefnum fyrr í vikunni, en er horfin þaðan núna. Ætli það sé ekki merki um að búið sé að ganga frá kaupum? Hefði samt haldið að væntanlegir kaupendur myndu banka upp á hjá okkur, þó ekki væri nema til að vita hvort e-ð standi til í framkvæmdamálum og þessháttar.
(Leiðrétting, kl. 15:55: íbúðin er aftur komin á sölulista.)
* * *
Staðan í sjoppukeppninni er æsispennandi:
Hallinn 15 : Skalli 11
Hamraborg 10 : Bogga Bar 5
Brú 14 : Staðarskáli 20
Egilsstaðir 12 : Varmahlíð 17
Jamm.