Nanna veltir fyrir sér mörkum Þingholtanna í framhaldi af pælingum mínum um mörk Norðurmýrar.
Hvernig skipta skal Reykjavík innan Hringbrautar/Snorrabrautar upp í hverfi er ekki auðvelt mál. Þegar ég skrifaði BA-ritgerðina mína rakst ég að stórmerkilega skiptingu sem reynt var að festa í sessi á ofanverðum þriðja áratugnum. Hún er skringileg við fyrstu sýn, en venst furðufljótt. Legg til að hún verði tekin upp á ný.
Hverfaskiptingin er sem hér segir:
* Selbúðir – Allt svæðið vestan við Bræðraborgarstíg. Mætti svo sem kalla ínanust líka, en Selbúðir er ágætt nafn.
* Ægissíða – Svæðið austan Bræðraborgarstígs, norðan Túngötu en vestan við Aðalstræti og Grófina. Verst að þetta gæti valdið ruglingi við Ægisíðu (með einu s-i). Það væri bara gott á snobbarana í Grjótaþorpinu að teljast ekki sjálfstætt hverfi.
* Sólvellir – Allt svæðið austan Bræðraborgarstígs og sunnan Túngötu út að gamla kirkjugarðinum og Garðastræti. Mjög rökrétt örnefni, enda Sólvallagata þvert í gegnum hverfið.
* Tjarnarbrekka – Kirkjugarðurinn, svæðið milli Garðarstrætis og Tjarnargötu allt suður fyrir Skothúsveg, þar með talin Bjarkargatan.
* Víkin – Kvosin norðan Tjarnarinnar, austan Aðalstrætis og vestan Lækjargötu og Kalkofnsvegar. Nafnið er ágætt og í það minnsta mun skynsamlegra að tala um „Víkina“ þar sem einhverja vík er að finna, en ekki nefna landspildu við hliðina á einhverri gróðrastöð þessu nafni eins og hjá Knattspyrnufélaginu Víkingi.
* Arnarhóll – Svæðið austan Lækjargötu/Kalkofnsvegar, norðan Laugavegs en vestan Frakkastígs. Þessar götur eru í dag margar hverjar ranglega taldar hluti Skuggahverfisins.
* Skuggahverfi – Norðan Laugavegs og austan Frakkastígs allt að Snorrabraut. (Ath. í dag er yfirleitt miðað við að Skuggahverfið sé neðan Hverfisgötu en ekki Laugavegs, því mætti breyta.)
* Laufás – Afmarkast af Fríkirkjuvegi í vestri, Bókhlöðustíg í norðri og Laufásvegi í austri, allt suður að Njarðargötu. (Ath. samkvæmt þessari hverfaskiptingu tilheyrir Tjörnin sjálf engu hverfi.) Þetta er líka ágætis örnefni. Laufásbærinn má ekki gleymast.
* Spítalahlíð – Svæðið sunnan Njarðargötu og Eiríksgötu. Nafnið skýrir sig sjálft.
* Þingholt – Svæðið austan við Lækjargötu og Laufásveg, milli Laugavegs og Njarðargötu. Markast í austri af Óðinsgötu og Urðarstíg. Þetta eru augljóslega miklu, miklu minni Þingholt en óprúttnir fasteignasalar vilja vera láta. Mér finnst þetta mjög passleg stærð.
* ísgarður – Þetta er uppáhaldið mitt! Hverfið afmarkast af Óðinsgötu/Urðarstíg í vestri og suðri, Njarðargötu í austri og Skólavörðustíg í norðri. Hverfið dregur vitaskuld nafn sitt af því að allar götur þess heita eftir persónum úr norrænni goðafræði. Snilld!
* Tungan – Jamm, eitthvað hefur verið farið að draga úr ímyndunaraflinu og hugmyndaauðginni í örnefnasmíðinni. Tungan er svæðið sunnan Laugavegs að Snorrabraut, norðan og vestan við Skólavörðustíg og Eiríksgötu.
Það er því ljóst að Nanna býr hvorki í Þingholtunum né á Skólavörðuholti. Hún er „úr Tungunni“.
Jamm.