Tímaritið Birta fjallaði um helgina um stuðningsmenn íslensku liðanna í karlafótboltanum. Þar á meðal var rætt við besta og frægasta bloggarann.
Á stuttri grein tókst að koma inn einni ljótri villu – afi var rangfeðraður, sagður Stefánsson en ekki Steinþórsson.
Þá skrifaði blaðamaðurinn palladóma um stuðningsmenn og sagði FRAMara mæta illa á leiki og vera leiðinlega. Það eru kaldar kveðjur. Vissulega eru áhorfendurnir með færra móti síðustu árin, en miðað við stöðu í deildinni er hún alls ekki svo slæm og betri en hjá mörgum öðrum. Svo verða FRAMarar seint taldir leiðinlegir – vissulega hljóðlátir, en það er allt annað mál.
* * *
Fyrsti pistill minn í DV um fótbolta birtist í morgun. Umbrotsmaðurinn skellti millifyrirsögn inn í meginmál og bjó þannig til óskiljanlega setningu. Það er nákvæmlega það sama og gerðist síðast þegar ég sendi grein í Moggann. Hvernig er best að auðkenna millifyrirsagnir í word-skjölum til að hindra umbrotsmenn í þessu?
* * *
Sá Mínus á menningarnótt í garðinum á Dillon. Sat svo fram eftir nóttu og sötraði bjór ásamt Páli sem þá var að skríða saman eftir hálfmaraþon. Að lokum tókst þó nýju rekstraraðilunum að flæma okkur út. Hvaða snillingur skyldi hafa ráðlagt þeim að blasta reif-tónlist uns ekki heyrist mannsins mál. Enduðum á að hrökklast inn á Langa bar – en þá hafði írmann Jakobsson bæst í hópinn.
* * *
Dreif Steinunni með á undanúrslitaleikinn í fimmta flokki karla. FRAMstrákarnir töpuðu naumlega fyrir sterku FH-liði. Gaman að sjá að FRAMararnir eigi ennþá góða yngri flokka.
* * *
Vídeógláp í gærkvöldi. Leigðum Engla með járnskolta, sem er prýðileg mynd um Alice Paul, baráttukonu fyrir kosningarétti kvenna í Bandaríkjunum á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Bandarísku súffragetturnar börðust ekki síður af hörku en þær bresku. Þeim var varpað í fangelsi, neitað um stöðu pólitískra fanga og þvingaðar til að innbyrða mat í hungurverkföllum.
Að lokum skilaði barátta þeirra árangri og Wilson forseti bar upp frumvarp um atkvæðisrétt kvenna. Eins og gerist svo oft þegar róttækar baráttuhreyfingar ná markmiðum sínum, þá hafa margir reynt að endurskrifa söguna á þann hátt að niðurstaðan hafi í raun verið ótengd þeirri baráttu sem á undan fór – að „konurnar hefðu á endanum fengið kosningaréttinn – óháð baráttu þeirra“. Það er vitaskuld þvæla.
Wilson Bandaríkjaforseti er vissulega einn af markverðari forsetum BNA, en hann var þó duglegri við að prédika yfir öðrum þjóðum um frelsi og mannréttindi en að taka til í eigin ranni.
Ég hef ekki lesið mikið um sögu bandarísku kvenfrelsisbaráttunnar, en hún er stórmerkileg. Sérstaklega óttinn við rauða byltingu á árunum eftir fyrra stríð. Það er ótrúlegt hversu hræddir bandarískir ráðamenn voru við kommúnista, anarkista og feminista á þessum tíma.