Vá, hvað það voru margir á þessari opnun. Samt var ekki boðið mökum annarra en starfsfólks safnsins og eftir því sem mér var sagt hafði gestalistinn verið skorinn massívt niður frá því sem upphaflega var ætlað. Það gerði enginn tilraun til að vera með gestabók, enda hefði það verið dauðadæmd tilraun í svona mannmergð.
Sýningin er flott. Húsið lítur vel út. Nokkrar sniðugar sýningarlausnir – helst að það sé hægt að kvarta yfir að bruðlað sé með plássið í árdaga en svo sé samtíminn eins og síld í tunnu.
Ég lofaði sjálfum mér að þegar inn á safnið kæmi, skyldi ég ekki taka strikið í átt að hlutunum sem ég lánaði. Auðvitað sveik ég það. Varði því mestum tíma í að skoða rafmagnsstaur, stauraskól, brunahana og rafmagnsmæli. – Málið er að fólk fer ekki á söfn til að skoða nýja og óþekkta hluti. Það fer til að skoða hluti sem það hefur séð milljón sinnum áður, í eilítið öðru samhengi.
Valþjófsstaðahurðin er svo sem ágæt – en gamalt Möve-reiðhjól er betur til vinsælda fallið á safni.
* * *
Fyrir margt löngu hafði ritstjóri tímarits samband við mig og bað um grein í blaðið sitt. Það var auðsótt mál.
Greininni skilaði ég á tíma, en blaðið hefur ekki komið út, ekkert bendir til þess að það muni koma út og ritstjórinn er hugsanlega hættur störfum. Ég er að spá í að taka uppp skáldanafnið „Koss dauðans“ fyrir tímaritaskrif mín í framtíðinni.