Guttinn sem kosinn var Heimdallarformaður um daginn var nokkuð óheppinn þegar hann talaði um að „kennarar tækju nemendur sína í gíslingu“ með því að fara í verkfall. Þetta gerði hann sama dag og verið var að jarðsetja krakkana úr rússneska skólanum.
Gott og vel, þetta væl um vesalings börnin er sama tuggan og fólk hefur yfir alltaf þegar kennaraverkföll komast í umræðuna. Hvílk endemis vitleysa!
Hvers vegna segja menn ekki eins og er, að verkföll í grunnskólum eru fyrst og fremst bögg og vesen fyrir foreldra sem hvergi geta komið gríslingunum sínum fyrir – en skipta börnin litlu máli.
Þessi verkföll sem maður lenti í sem krakki, voru frekar ljúfur tími. Þetta jafngilti stuttu vetrarfríi – þótt eflaust hafi mamma og pabbi þurft að leggja á sig ýmis konar vesen í kringum þetta. Hvað námsefnið varðar, þá tókst kennurunum alltaf að vinna upp töpuðu dagana og við kláruðum þær kennslubækur sem lagt var upp með í byrjun.
Verkföll – svo fremi þau séu ekki úr hófi löng, fokka kennslu hjá bekkjardeild ekkert verr upp en t.d. veikindi hjá kennara. Þegar kennarar veikjast, þá ýmist falla niður kennslustundir, börnin eru send í eitthvað dund og föndur eða kallaður er til afleysingarkennari sem tekur allan tímann í að læra nöfnin á hópnum og halda uppi aga.
Hvers vegna skrifa menn ekki innblásnar greinar í dagblöðin til að skammast yfir þeim mannréttindabrotum gagnvart börnum sem felist í veikindum kennara?
* * *
Luton vann Chesterfield. Erum efstir með 22 stig af 24 mögulegum. Mike Newell er snillingur og Mick Harford líka!
FRAM dugar jafntefli gegn Kebblavík í lokaumferðinni. Verra gæti það verið.
* * *
Orkuveitan hefur lokað fyrir aðgengi að öllum vefsíðum með endingarnar blogspot.com og tripod.com. Hins vegar hefur tölvudeildinni ekki komið til hugar að loka á t.d. malefnin.com þar sem ég þykist vita að einhverjir Orkuveitustarfsmenn eyði miklum tíma, tilveran.is er sömuleiðis opin (og væri þó fyllsta ástæða til að loka) – og kaninka.net lifir enn.
Jamm.