Á gærkvöld kláraði ég leikskránna fyrir næsta leik FRAM á sunnudaginn kemur. Leiðari hennar leggur út af bókinni „Bítlar eða bláklukkur“ eftir Jennu og Hreiðar.
ístæða þess að ég svo mikið sem veit um tilvist þessarar bókar er sérstök. Þannig er að í Melaskólanum var bekkjunum skipt upp þegar kom að leikfimi. Annað kynið var sent niður í leikfimissal en hitt fékk kennslu hjá bekkjarkennaranum í einhverri þeirri grein þar sem talið var hentugt að hafa fáa nemendur í einu. Á ellefu ára bekk voru það ljóð.
Á Melaskólanum gilti sú regla að gríslingur sem var kvefaður, gleymdi leikfimisfötum eða gat af öðrum ástæðum ekki tekið þátt í tímanum – þurfti að sitja og fylgjast með hinum. Það mátti nefnilega ekki jafngilda fríi að gleyma leikfimisdóti.
Engu að síður álpaðist einhver í hópnum upp í kennslustofu einn daginn, meðan á leikfimistíma stóð. Þar uppgötvaði hann að eitthvað skrítið var á ferðinni. Stelpurnar sátu í makindum við borðin og virtust ekki vera að stauta sig í gegnum Skólaljóðin. Þetta kallaði á frekari rannsóknarvinnu.
Næstu tvo tíma sendum við út njósnara. Ég var yfirmaður njósnadeildar, en einhverjir kjarkmeiri úr strákahópnum voru settir í sjálfa njósnaleiðangrana. Þeir tilkynntu leikfimiskennaranum að þeir hefðu gleymt fötunum heima, voru látnir hlaupa nokkra hringi með okkur hinum en læddust svo út úr salnum og inn í skólabygginguna. Þar tók við æsilegt laumuspil, því ekki hefði verið gott að hlaupa beint í flasið á Braga gangaverði.
Fljótlega tókst okkur að fá góða mynd af því sem átti sér stað. Á stað þess að berja öndvegisljóðum íslenskra skálda inn í kollinn á stelpunum, var Dúa kennari að lesa fyrir þær unglingabók.
Með þessa vitneskju að vopni ákváðum við að leggja spilin á borðið. Óðum inn í kennslustund og frontuðum kennarann: hvers vegna í andskotanum fengju stelpurnar sérmeðferð? Hvers vegna fengju þær að skemmta sér meðan við þræluðum.
Á stað þess að brotna saman, játa sekt sína og verðlauna okkur með sætindum og löngum frímínútum, stóð Dúa kennari keik. Hún benti okkur á að stelpurnar væru fyrir mörgum vikum búnar með námsefni vetrarins úr Skólaljóðunum, á meðan mestallur strákahópurinn væri kominn vel á eftir (enda sumir það sem síðar var kallað lesblindir, aðrir heimskir en flestir latir). – Hins vegar, bætti hún við, væri sjálfsagt mál að lesa fyrir okkur líka…
…og í þeim töluðum orðum dró hún fram „Bítla eða bláklukkur“ og byrjaði að lesa.
Aðra eins vellu hef ég aldrei á ævi minni heyrt. Frá þessum degi hef ég aldrei efast um það í augnablik að „Bítlar eða bláklukkur“ sé leiðinlegasta bók sem skrifuð hefur verið. Hana mætti nota til að kveða niður kölska sjálfan.
Eftir stendur að njósnastarfsemi okkar strákanna í 5.C tókst vel.
Jamm