Þegar staðan var orðin hvað verst í leikjunum í gær, fór pabbi út í búð og keypti inn fyrir kvöldmatinn. Þar sem FRAM virtist nokkuð örugglega fallið ákvað hann að hugga mig með því að haga svikinn héra í matinn (sem heitir reyndar ýmist svikinn héri og falskur héri). Það er huggunarmaturinn minn og hefur oft verið reiddur fram á erfiðum stundum.
Reyndin varð önnur. Við héldum okkur uppi á skúnkalegasta hátt sem hugsast gat. Leit niður í klefa eftir leik og sá þar einhverja skringilegustu stemningu sem ég hef orðið vitni að. Allir voru fegnir að hafa sloppið við fallið, en skömmuðust sín jafnframt niður í tær. Á næsta ári – þegar við spilum við Skagann en ekki Siglufjörð, verður okkur þó skítsama hvernig leiknum í gær lyktaði.
Leiðinlegt að Víkingar skuli hafa þurft að falla. Þeir munu spila við Víking Ólafsvík á næsta ári. Ætli það sé í fyrsta sinn sem Víkingsliðin eigast við? Hvað munu stuðningsmennirnir gera? Hvatningarhrópið: „ífram Víkingur – Reykjavík altso!“ – hljómar ekki mjög þjált…
* * *
Grunnskólakennarar eru komnir í verkfall. Fíflið hann Guðmundur Andri skrifaði grein í Fréttablaðið í morgun sem var alveg á pari við hans kjánalegustu greinar. Röksemdafærslan var eitthvað á þessa leið:
Kennarar eru á skítalaunum. Þeir ættu skilið að fá hærri laun. Raunar ættu þeir skilið að fá margar margar milljónir í laun á mánuði því þeir eru svo merkileg stétt. Raunar eru þeir ómetanlegir. Og það er ekki hægt að meta það sem er ómetanlegt, þannig að best er að sleppa því bara alveg að hækka þá í launum. – Alltaf getur maður treyst á að menntakrötunum tekst að finna hálfvitavinkilinn á hverja einasta máli.
Hysterían sem komin er upp út af þessu verkfalli er með hreinum ólíkindum. Það er því best að leiðrétta nokkrar ranghugmyndir sem oft hefur verið haldið fram á undanförnum dögum:
* Það fer enginn krakki að reykja/dópa/drekka/selja líkama sinn vegna þess að skólinn lokar í mánuð. Ef sú væri raunin, þá ættum við að fella niður öll frí og jafnvel kenna líka um helgar. Vissulega munu einhver börn byrja á einhverju eða öllu af ofantöldu – en að kenna verkfallinu um það er jafnbillegt og rekja það til þess að Siv hafi verið hrakin úr ráðherraembætti.
* Það munu engin börn fokka upp samræmdu prófunum sem ella hefðu náð þeim með glans. Skólaskyldan er tíu ár. Það er helvíti óheppinn nemandi sem hafði einmitt hugsað sér að nota september og október 2004 til að læra y-regluna í eitt skipti fyrir öll.
* Krakki sem lendir í verkfalli fer miklu betur út úr því en krakki sem lendir í veikindum. Á síðara tilvikinu dregst viðkomandi aftur úr hinum í bekknum og þarf upp á eigin spýtur að reyna að ná þeim. Verkfallið hægir jafn mikið á öllum hópnum.
Jamm