Marshall-aðstoðin komst til umræðu í spjallþætti í útvarpinu – og þá sérstaklega sú staðreynd að Íslendingar áttu kost á henni.
Þetta minnti mig á atriði sem alltaf hefur farið í taugarnar á mér varðandi umfjöllun um þessa aðstoð – þegar dæmið er sett upp á þann hátt að Bandaríkin hafi af örlæti sínu og manngæsku dælt peningum í uppbyggingu Evrópu eftir stríð.
Vissulega var Marshall-aðstoðin mikilvæg fyrir mörg lönd sem hana þáðu. En hún var ekki síður hagstæð veitendunum að mörgu leyti. Aðstoðin var að langmestu leyti skilyrt á þann hátt að fulltrúar Bandaríkjastjórnar komu að því að ákveða hvernig henni skyldi varið. Hún fór að mjög miklu leyti til kaupa á rekstrarvörum og sá varningur skyldi vera bandarískur.
Mörg bandarísk stórfyrirtæki áttu í vandræðum strax eftir stríðið þar sem framleiðslan fyrir hernaðarmaskínuna dróst skyndilega saman (sem er veigamikill þáttur í því hvers vegna ákveðið var að blása til kalda stríðsins). Þessum fyrirtækjum kom því Marshall-aðstoðin ákaflega vel.
Það sem ekki minna máli skipti var sú staðreynd að með því að fá ríki Evrópu til að taka upp bandarísk tæknikerfi á ýmsum sviðum, s.s. í raforkukerfinu, tryggðu Bandaríkjamenn sér framtíðarmarkað í viðhaldi og seinni tíma stækkunum. Það voru gríðarlegir hagsmunir.
Engin ástæða er til að gera lítið úr vinarþeli Bandaríkjastjórnar í garð Evrópumanna eftir stríðið, en gaman væri að lesa rannsókn þar sem þessir þættir væru teknir með í reikninginn. Hversu mikil fórn var Marhall-aðstoðin í raun og veru fyrir Bandaríkjamenn eða högnuðust þeir ef til vill á öllu saman?
* * *
Fréttablaðið sá ástæðu til að birta sömu myndina af mér á tveimur stöðum í blaðinu í dag. Annars vegar var verið að ræða um grásleppuskúranna á Ægissíðunni sem ég vil ólmur láta gera upp.
Hins vegar var ég beðinn um að kommenta á tillögur Samfylkingarinnar í hermálinu sem formaður SHA. Tónninn sem lesa má út úr fréttastubbnum í blaðinu er nú harðari en ég vildi. Ég tók það sérstaklega fram að margir góðir herstöðvaandstæðingar væru innan Samfylkingarinnar og sló varnagla varðandi það að margt í tillögunum liti skringilega út EINS OG ÞAí HAFI VERIí KYNNT í fjölmiðlum – sjálfur væri ég ekki búinn að skoða öll gögn málsins og efaðist ekki um að málið væri sett fram með skýrari hætti þar. Þessir varnaglar mínir rötuðu ekki inn í fréttina.
Þá er haft eftir mér í Fréttablaðinu að tillögur Samfylkingarinnar í hermálinu fyrir kosningarnar 1999 hefðu ekki nefnt varnarsamninginn. Það er vitaskuld alrangt, kjarni málsins er einmitt sá að stefnan frá 1999 gerði ráð fyrir því að varnarsamningurinn viki. Samfylkingarfólk þorði alveg að viðurkenna hið augljósa fyrir fimm árum – að brottför hersins þýddi endalok varnarsamningsins. Hvers vegna hefur það breyst núna?
Samfylkingin var með ágætis stefnu í hermálinu 1999, en gugnaði á að framfylgja henni vegna þess að hún hafði meiri áhyggjur af því að óánægðir miðjumenn kynnu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en að óánægðir vinstrimenn kynnu að fara yfir til Vinstri grænna. Þetta var augljóslega rangt mat, eins og við reyndum lengi að benda á fyrir kosningar og rétt eftir þær.