Mæli með pistli reiða mannsins í Mogganum. Eiríkur Stefánsson er greinilega foxillur og sendir sveitastjórnarmönnum tóninn. Fyrirsögnin gefur tóninn: „Forystumenn sveitarfélaga – þið eruð erkifífl!“ Vissi ekki að Mogginn leyfði öðrum en Sverri Hermannssyni að kalla heilu þjóðfélagshópana erkifífl. Ég er að spá í að taka þetta orð upp í auknum mæli.
* * *
Stranglers á leið til Íslands. Það er gott. Einhver sagði að tónleikarnir yrðu í Smáranum, það hljómar ágætlega. Svo las ég að það yrði í Smáralindinni, það hljómar illa.
1986 áttu Stranglers að koma á Listahátíð. Þeir forfölluðust og Simply Red komu í staðinn. Ekki góð skipti það. Stranglers árið 1986 voru öllu svalari en Stranglers árið 2004.
Verður maður ekki samt að mæta á þessa tónleika? Sjáum til hvenær þetta verður nákvæmlega.
* * *
Kvöldmatur gærdagsins var frá Stebba nafna mínum og fjölskyldu á Indókína. Það er staður sem stendur alltaf fyrir sínu. Maturinn sem maður fær í heimsendingartilboðunum er fínn og velútlátinn. Það er samt enn betra að panta af matseðlinum og éta á staðnum. Þegar ég borða þarna færir Stebbi mér yfirleitt kaffi eða ís í boði hússins – upp á gamlan kunningsskap. Það þykir mér alltaf gaman. Eitthvað segir mér samt að annar hver gestur fái sömu meðferð!
* * *
Horfði á fótboltann í gær á Glaumbar. Þar er ekki gaman að vera ef maður mætir seint og fær ekki sæti. Reyndi að fylgjast með fjórum leikjum á sama tíma á jafn mörgum skjám. Varð ringlaður fyrir vikið og náði ekki að fylgjast með neinu.
Celtic var kjöldregið gegn einhverju rússnesku liði sem ég man aldrei hvað heitir. Aumingja Skotar, þetta er alltaf sama baslið hjá þeim.