Það er komið að stórri stund í sögu íslenska bloggsamfélagsins. 22. október verður væntanlega í framtíðinni minnst sem tímamótadags, þar sem skil urðu í sögu miðilsins.
Fyrir margt löngu tók ég að mér erfitt en ábyrgðarfullt hlutverk – að vera besti og frægasti bloggari Íslands (og jafnvel á Norðurlöndum). „Það er mikið á einn mann lagt, að stofna lýðveldi á Íslandi“ var haft eftir Gísla Sveinssyni á sínum tíma. Ég get sagt sömu sögu. Það var alls ekki auðvelt að vera óformlegur leiðtogi íslenska bloggsamfélagsins. Ég sé samt ekki eftir einni einustu stund.
Um nokkurt skeið hafa þó leitað á mig hugsanir þess efnis hvort kraftar mínir nýttust nægilega vel á friðarstóli? Er hægt að samrýma það tvennt, að vera besti og frægasti bloggarinn en jafnframt að synda gegn straumnum, vera frjór í bloggsköpun sinni og útvíkka bloggformið. Mín niðurstaða er sú að það sé ekki hægt.
Á alltof langan tíma hef ég verið Yesterday með Bítlunum. Það sem samtíminn þarf er hins vegar meira út í Einstein on the Beach eftir Philip Glass. Ég hef hér með ákveðið að gerast fyrsti íslenski blogglistamaðurinn.
Það sem endanlega sannfærði mig um að taka stökkið, var sú ákvörðun Pauls Gascoigne að breyta nafni sínu í G8 og skapa skapa sér þannig nýja ímynd. Með þessu fetar Gazza í fótspor tónlistarmannsins Prince, sem um árabil gekkst ekki við Prince-nafninu heldur tók upp merki í stað nafns.
Mistökin sem Prince gerði var að velja sér merki sem ekki var til á lyklaborðum tölva og ritvéla. Fyrir vikið nefndist hann í daglegu tali ekki annað en „listamaðurinn sem áður hét Prince“. Þessi mistök mun ég ekki endurtaka.
Niðurstaða mín er því þessi:
* Hér með segi ég af mér sem besti og frægasti bloggarinn. Það tilkynnist því að þessir titlar liggja á lausu, ýmist saman eða hvor í sínu lagi. Öllum bloggurum er frjálst að gera tilkall til þeirra, en koma verður í ljós hvort samfélagsleg viðurkenning fylgir í kjölfarið.
* Hið nýja blogglistamannsnafn mitt verður # (shift+3). Til vara má kalla mig Blogglistamanninn eða jafnvel Blogglistamanninn sem til skamms tíma var besti og frægasti bloggarinn – mér þætti þó verra ef það heiti festist við mig til langframa.
# býður ykkur velkomin. Nýtt skeið er hafið í sögu bloggs á Íslandi.