Á vefritinu Deiglunni ritar Pawel Bartoszek grein um kosningarnar í Úkraínu. Sem hans er von og vísa, er greinin á stærðfræðilegum nótum. Niðurstaða Pawels er skýr:
Útgönguspá sem gerð var á yfir 30.000 manna úrtaki sýndi að Jústénko var með 54% atkvæða en Janúkévits aðeins 43%. Á þeirri könnun var fólk beðið um að krossa við á eyðublaði og setja í kjörkassa. Önnur könnun sem byggð var á viðtölum sýndi Jústénko með 4% forskot. En þegar „talið“ hafði verið upp úr kössunum vildi aðalkjörstjórn meina að Janúkovits hafði unnið með 49% gegn 47%.
30.000 manna úrtak er eiginlega öruggt tölfræðilega séð. Skekkjumörk miðað við 99% vissu eru um minni en 1%. Þetta þýðir að lýkurnar á því að fylgi Jústénkos hafi verið á bilinu 53%-55% eru yfir 99%. Á Bandaríkjunum notast menn við úrtök á bilinu 2 til 3 þúsund í hverju fylki. Slíkar útgönguspár hafa hingað til reynst mjög vel. Vissulega getur munað hálfu prósenti en slík tugprósentasveifla, sem við sáum hér er útilokuð. Hvað þá að hún eigi sér stað tvisvar í röð! Sama var nefnilega upp í teningnum fyrir 3 vikum, í fyrri umferð kosninganna. Útgönguspár sýndu 8% forskot Jústénkos en niðurstaðan var sú að frambjóðendur urðu næstum hnífjafnir.
Með öðrum orðum – eru útgönguspár svo tölfræðilega pottþéttar að þegar uppgefin kosningaúrslit stemma ekki við þær, þá er um kosningasvindl að ræða. Þetta er áhugaverð kenning og fullrar athygli verð. (Þótt vssulega sé nokkuð vel í lagt hjá Pawel að kalla 6% og 13% sveiflur: „tugprósent“).
En sá sem segir A – hann þarf líka að segja B. Ef sigur ráðamanns í Úkraínu á fulltrúa stjórnarandstöðunnar í trássi við útgönguspár er sönnun á kosningasvikum, hvernig má þá skýra sigur sitjandi Bandaríkjaforseta í Ohio þvert á útgönguspár? Það var engin hálfsprósentssveifla sem þar átti sér stað, heldur öllu meira. Sömu sögu má raunar segja um Flórída og Pennsylvaníu. (Reyndar gáfu útgönguspár Al Gore sigurinn í Flórída 2000.)
Ef eitthvað er, ættu útgönguspár að vera marktækari í Flórída en í Úkraínu, þar sem á fyrrnefnda staðnum hafa fyrirtæki á sviði skoðanakannanagerðar áratuga reynslu af slíkri framkvæmd. – Getur Pawel Bartoszek komist að annarri niðurstöðu en að um kosningasvik stjórnvalda hafi verið að ræða í Bandaríkjunum? Spyr sá sem ekki veit.
Annars mætti skrifa langa færslu um útgönguspár sem ekki ríma við kosningaúrslit. Frægasta dæmið er e.t.v. bresku þingkosningarnar 1992. Þar varð 8,5% sveifla, ríkisstjórninni í vil. Skyldi John Major hafa svindlað? Það hlýtur eiginlega að vera.
Það er ekki hægt að trúa stundum á útgönguspár og stundum ekki.