Egill Helgason nefndir Alexander Dubcek í framhjáhlaupi í bloggpistli sínum. Þar segir: Alexander Dubcek var annar, leiðtogi Tékkó sem var settur af 1968. Þá hafði hann verið horfinn sjónum í tvo áratugi. Dúkkaði svo upp aftur í flauelsbyltingunni 1989, en lést nokkru síðar í dularfullu bílslysi.
Reyndi að finna eitthvað á netinu um hvers vegna bílslysið átti að vera svona dularfullt. Löggan í Slóvakíu komst að þeirri niðurstöðu að bílnum hefði verið ekið á 115-130 km hraða á blautum og hálum vegi þar sem hámarkshraði var 80 km á klst. Bíllinn lenti utan vegar og sá gamli þeyttist út úr honum og dó einhverju síðar á spítala.
Það er líka erfitt að sjá hverjir áttu að hafa hag af því að drepa karlinn. Sumir láta sér detta í hug að það hafi verið einhverjir þeir sem sáu sér hag í því að skipta upp Tékklandi og Slóvakíu – af því að Bubcek hafi verið sambandssinni. Aðrir – einkum slóvakískir þjóðernissinnar – telja að andstæðingar Slóvakíu hafi gert það til að tryggja að fyrsti forseti landsins væri labbakútur en ekki hetja á Vesturlöndum að hætti Havels. Það eru langsóttar kenningar.
Annars virðast dauði Díönu prinsessu hafa orðið til að ýta undir svona samsæriskenningar, þar sem þau voru í samskonar bifreið.
Ég er ekki alveg að kaupa samsæriskenningar sem ganga út á að fikta við bíla til að gera farþegasæti hættumeiri og múta svo bílstjóranum til að lenda í slysi. Það hljóta að vera til effektívari leiðir til að ryðja fólki úr vegi. Fólk sem ekki er í bílbeltum fer illa út úr því þegar bíll á ofsahraða keyrir á – það þarf enga leyniþjónustu eða launmorðingja til að tryggja það! Málið er nú ekki mikið flóknara.
Annars var Dubcek vænisjúkur. Hann sakaði KGB á sínum tíma um að reyna að drepa sig með því að blanda strontíum í súpuna hans. – Enn og aftur er ég viss um að til eru skilvirkari drápsleiðir.